Leita í fréttum mbl.is

Stuðmenn við kistuna?

Áhugi minn á dánartilkynningum hefur farið vaxandi í seinni tíð.  Af þeim sökum varð ég var við stórlega ýktar fréttir af  andláti Stuðmanna, Hljómsveit allra landsmanna.  Sumum finnst að þeir séu orðnir helst til langlífir.  Sjaldan launar kálfur ofeldi.  Hljómsveitin hefur haft ofan af fyrir landsmönnum, með hléum þó, allt frá því að Sumar á Sýrlandi kom út.  Ég hlustaði fyrst á hana á Sellátrum í Tálknafirði, en þar fékk ég einnig, í fyrsta og eina skiptið, signa grásleppu og hvorugu mun ég gleyma.   

Ef til vill voru það textarnir, en fram að því höfðu hljómsveitir fengið gamla karla til að semja þá og voru í engu sambandi við tíðarandann.  Þegar hér var komið voru Bítlarnir komnir og farnir og Stones byrjaðir á sínum besta áratug.  Uppskriftir af textunum voru í Óskalögum sjómanna og Óskalögum sjúklinga, en þann þátt kölluðu húmoristar Við kistuna.  Þegar mér verður hugsað til þess þáttar heyri ég alltaf  Ó, Jesú bróðir besti með Þorsteini Fríkirkjpresti, en ekki Yesterday eða You Better Move on.  Það er ótrúlegt hvernig minnið getur leikið mann.  Nefna mætti lög eins og Bláu augun þín, Fyrsta kossinn og Slappaðu af.  Ég veit að það á ekki að vera með alhæfingar, en það er mest gaman. Sjálfsagt voru einhverjir textar góðir.  

Stuðmenn eru miklir lagasmiðir, frábærir hljóðfæraleikarar og hafa haft góða söngvara.  Þetta eru vanir menn, oft með skemmtilega kímnigáfu.  Mér finnst Með allt á hreinu best, hvert lagið öðru betra og svo voru þau negld inn í þjóðina með vinsælustu kvikmynd Íslandssögunnar.  Heyrði bankatónleikana með öðru eyranu og mikið var sándið lélegt og hjá Stuðmönnum hreint skemmtarasánd.  Hljómsveitin hefur nýlega misst tvær skrautfjaðrir en vonandi er Jakob með einhverja ása upp í erminni.  Ísland mun ekki bera sitt barr án Stuðmanna.  En það er að koma haust.         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Viðar Jónsson
Viðar Jónsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband