Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Mikið skáld Gyrðir

Nú þegar bókaflóðið er að fjara út ganga menn fjörur og huga að reka.  Auðvitað er mest af Arnaldi, 30 þús. eintök!  Hann á allt gott skilið fyrir að skrifa íslenskar glæpasögur sem ekki eru hlægilegar eða fáránlegar.  Allir skrifa nú glæpasögur, formúlubókmenntir sem leita fyrirmynda hjá útlendum höfundum. 

Ég las ekki alls fyrir löngu viðtal við skáldið Gyrði Elíasson, þar sem m.a. kom fram að sala á síðustu bókum Gyrðis hafi verið ótrúlega lítil.  Miðað við það sem var, eða þá aðra höfunda?  Mér hefur fundist að bókmenntafræðingar væru flestir sammála um að Gyrðir væri eitt albesta skáld Íslendinga.  Bestur?  Það er sennilega rétt að gera ráð fyrir ólíkum smekk, en svo gæti hann stafað af lestrarleysi. 

Við stöndum okkur ömurlega sem ,,bókaþjóð".  Við styðjum ekki eða kaupum ekki það sem mest gildi hefur.  Ég hef ekki frumlegar skoðanir á neinu, en þær bækur sem veitt hafa mér mesta ánægju eru bækur Halldórs Laxness, Þórbergs Þórðarsonar, Málfríðar Einarsdóttur, Tímaþjófurinn og svo bækur Gyrðis.

Allar þessar glæpasögur eru einnota bókmenntir og hrúgast upp á heimilum fólks.  Þetta minnir á jólagjafabækurnar eftir Alister MacLean sem gefnar voru þeim sem alls ekki vildu lesa neitt.  Eftir svona 10 ár verða fullir gámar af Arnaldi fyrir utan Góða hirðinn.  Allt orðið fullt inni.

Er ekki orðið tímabært að umhverfisráðuneytið setji reglugerð um hve stórt upplag megi prenta af einstökum bókum.  Þá á ég við, að draga verður úr eyðingu regnskóganna, o.s.frv.

 


Flytur Björgólfur áramótaávarpið?

Véfréttinni í Delfí hefur verið mikið niðri fyrir síðustu daga.  Hofgyðjur hafa túlkað þetta svo að yfirvofandi sé að bissnessmaður í teinóttu að nafni Björgólfur ætli að fá eitthvað fyrir snúð sinn hjá Páli útvarpsstjóra, og flytja ávarpið á gamlárskvöld. 

Þessi teinótti keypti vænan bita af RÚV af Páli nýlega, mun hann hafa keypt m.a. hádegis-og kvöldfréttir, svo og morgunleikfimina.  Markmiðið með flutningnum mun vera, samkvæmt véfréttinni í Delfí, að reyna að öðlast virðingu.

Þá segir véfréttin að verið sé að leggja á ráðin um sölu dómstólanna, m.a. til að auðvelda endurupptöku mála og dóma sem lengi hafa verið meira og minna tóm vitleysa. 

En verða bara ekki allir guðslifandifegnir?  Þessi ávörp hafa verið það alleiðinlegasta sem sögur fara af og fær fólk hroll þegar á þau er minnst.


Ég var maður ársins 2006

Gaut augunum aðeins á textavarpið í fyrrinótt.  Þar fannst mér vera sú stórfrétt að Time hefði valið Pútin sem mann ársins 2007.  Mogginn, hinsvegar, birti um þetta örfrétt, en blaðið er reyndar ekki þekkt fyrir neitt rússadekur.  Sem fréttaskýrandi tel ég að Mogginn hafi ekki vegið þessa frétt rétt, en það kemur í ljós.

Hef nú ekki öruggar heimildir fyrir því, að herinn eða CIA hafi verið með puttana í þessu, en það hefði verið góð flétta, því að rússneski herinn er farinn að bæra á sér.  Pútin, eða herforingjunum, finnst Bandaríkin sýna yfirgang.  Það farið að nefna nýtt vígbúnaðarkapphlaup.  Þetta val gæti því haft róandi áhrif á Pútin.

Aðalatriði fréttarinnar var þó lokamálsgreinin:  ,,Time valdi þig sem mann ársins í fyrra."  Já, mig!  Það stóð þig.  Hélt fyrst að þetta væri prentvilla, en sá fljótt að það var óhugsandi.  Hver ber eiginlega ábyrgð á því að maður er ekkert látinn vita af þessum mikla heiðri?  Þetta hefði getað breytt stórkostlega mínu lífi.  Mér finnst nú að fjarskiptatækni alþjóðavæðingunnar væri skárri en þetta.  Sennilega er best að biðja Ingibjörgu um að kalla bandaríska sendiherrann á teppið.

 

Kristilegt siðgæði í Árneshreppi

Siggi Guðjóns lét ekki eiga neitt hjá sér um hugmynd borgarbarns um viðbótarkirkju norður í Árneshreppi á Ströndum, ekki frekar en endranær.  Kom þangað nokkrum sinnum á ýmsum árstímum fyrir 10-12 árum og taldist í öll skiptin vera fært, en ekki var ég laus við einmannaleika á veturna því leiðin er löng, svo þurfti að fjarlægja stærðar grjót af veginum, nú og svo var það snjórinn.  Mér leið einna best í hvítum Lada Sport, blessuð sé minning þeirra.  Það var síberíulykt í þeim.

Það er fagurt í Trékyllisvík, fallegast í sól og blíðu.  En söfnuðurinn verðskuldar ekkert gott í kirkjumálum.  Það er ekki beint neyðarástand í húsnæðismálum biskupsins, sennilega ekki meiri fermetrafjöldi á mann í nokkurri stofnun sem enginn kemur inn í.  A.m.k. 200 á biðlista á hjartadeildinni því það vantar gjörgæslupláss, samt eru hjartasjúklingar ofdekruðustu sjúklingar landsins.  Læknarnir eru meira að segja farnir að útfæra og teikna aukapláss uppi á þaki!

Ég held að guð fyrirgefi það tæplega þegar söfnuðurinn gerði brottrækan séra Jón sem hafði þjónað þar í mörg ár, var reyndar sérstæður og litríkur klerkur, en hvar eiga menn að vera sérstakir ef ekki þarna norðurfrá?  Þetta hefur alla tíð þótt kostur á prestum á Íslandi og verið tilbreyting í fásinninu.  En fyrir kom þó, að fólk var ekki með á nótunum um hvort prestarnir væru svona mikið lærðir eða svona bilaðir.  Borgarbarnið, sem brátt verður orðinn hreppsstjóri, sér greinilega kosti þess að vera sérstakur.

Ráðherra kippti á dögunum kristilegu siðgæði út úr skólabyggingum landsins, líka úr þeim ágæta Finnbogastaðaskóla.  En hvernig á svo að mæla hvort skólastjórarnir hlýða þessari nýju reglugerð?  Það þarf að finna upp alveg nýjar og áður óþekktar græjur til þess.  Kannski eitthvað utan úr geimnum, eða ofarlega úr geimnum?

Ég var svo lánsamur að vera í nokkrum kennslustundum í Reykholti hjá Jónasi Árnasyni, þeim skemmtilega kennara, rithöfundi, pólitíkusi og skapmanni.  Hann benti okkur á þá augljósu staðreynd, að það væri ekkert vit í öðru en að galopna allar kirkjur og reka inn útigangshross landsins.  Ekki var talað um að þarna hefði orðið kristilegur siðgæðisbrestur í skóla, og var þó talsverð kristni í Reykholti, og væri það t.d. uppfært til nútímamælinga, jafngilti það í dag 12,7 krherzum, sem nú þykir dágott á biskupsstofu. 

Þetta er orðið allt of langt blogg.

 

 

 


Viðbragðsflýtir

Ekki sérlega liðugt orð.  En snarræði gengur ekki.  Að vera snöggur nær því, en sneggja hefur ekki átt upp á pallborðið.  Ég fór að spekúlera í því í gærkvöldi þegar ég var að reyna að forðast að horfa á mynd með hinum glataða leikara Jackie Chan, án þess að slökkva á sjónvarpinu.  Ég held, að hafa kveikt á sjónvarpinu veiti mér öryggiskennd, að ég sé í sama heimi og svona flestir. 

En Chan er viðbragðsfljótur.  Kvikmyndastjörnur geta nefnilega verið mjög snöggar og m.a. orðið frægar fyrir það.  Tökum Bruce Lee, sem varð cölt-eitthvað aðallega af því að hann drapst á toppnum, en hann kenndi okkur vesturlandabúum að brjóta allt og bramla með berum höndum, þ.e. án þess að nota verkfæri.  Ekki fannst öllum það vera framfarir, en hann var flottur og snöggur.  

Ekki má gleyma tveimur meisturum sem liðleikinn setti svip á, þá Buster Keaton, manninum með steinandlitið og Charlie Chaplin, flakkaranum fima.  En voru þetta ekki kvik- eða hreyfimyndir og segir þetta sig ekki sjálft?  Liggur í hlutarins eðli.  Endalaust blaður um....

 


Mænuskaðinn

Mikið dáist ég að ofurhuganum Auði Guðjónsdóttur hjúkrunarfræðingi, sem leggur allt undir til að auka batalíkur þeirra sem orðið hafa fyrir mænuskaða.  Nú síðast hafði hún forgöngu, ásamt dóttur sinni, um að koma á fót Mænuskaðastofnun.

Skyldi Auður hafa fengið medalíu hjá forsetanum? Vill eflaust frekar pening í baráttuna.  Það situr enn í mér, að maður sem vill láta gott af sér leiða og hefur gefið blóð 150 sinnum, féll ekki í kramið hjá sérfræðingum forsetans.  En t.d. utanríkisþjónustan virðist geta gengið í medalíurnar eins og hana lystir.  En auðvitað finnst mörgum það háðung að fá medalíu.

Mér skilst að nóbelsverðlaunin í læknisfræði hafa verið veitt fyrir stofnfrumurannsóknir.  Ég ímynda mér að þar gæti falist hugsanleg lækning á mænuskaða, en án þess þó að hafa nokkuð vit á því. 

Einn verðlaunahafanna benti á það á BBC í kvöld að hin viðkvæmu siðfræðilegu deiluefni vegna notkunar á stofnfrumum úr fóstrum gætu brátt verið úr sögunni, því byrjað væri að nota frumur úr fullorðnum einstaklingum og nefndi hann Japan og Boston.  Þetta ætti að hraða rannsóknum og framförum og glæða vonir.

Ekki einn af spámönnunum.

Merkileg þessi árátta að vera alltaf eitthvað að pæla í framtíðinni.  Þrátt fyrir að það sé margbúið að vara mann við þessu og að þetta geti alveg eins gert illt verra.  Þetta gerir ekkert gagn því að framtíðin er ekki komin, eða þá að þetta er allt hvort eð er fyrirfram ákveðið, og jafnvel þeir sem eru svo lánsamir að trúa blekkingu trúarbragðanna og vita hvað koma skal, hafa samt áhyggjur af framtíðinni.  Þó eru prestarnir stöðugt að lækka hitann í helvíti. 

Nú, ég verð að biðjast velvirðingar, því að ég fór strax út fyrir efnið.  Mér fannst aldrei vera heil brú í því að selja ekki bjór ef á annað borð átti að selja áfengi.  Ég leyfi mér að benda á snilldarlega lýsingu Halldórs Laxness á Íslendingum og bjórnum í hinni skemmtilegu sögu Guðsgjafaþulu.

Ég var þess fullviss þegar bjórinn var leyfður að heildarneyslan myndi ekki aukast að neinu ráði, en eins og allir vita hefur hún aukist mikið, hver svo sem ástæðan er.  Þetta hefur einnig átt sér stað í löndum sem við berum okkur saman við.  Kallar líf nútímamannsins á aukna vímuefnaneyslu?  Hver veit.  En ég rakst á tölfræði sem kom mér á óvart.  Áfengisneysla í vínmenningarlöndunum Spáni, Frakklandi og Ítalíu hefur minnkað umtalsvert.  Og hvernig stendur á því? 

Í fyrrnefndri sögu er reynt að útskýra hvaða augum fólk í öðrum löndum lítur á bjór, þetta sé einfaldlega fæðutegund, hluti af mataræðinu, eins og t.d. rúgbrauð.  Það reynist mörgum erfitt að minnka vímuefnaneyslu þegar hún er einu sinni komin úr böndunum.  En ef í þessum þremur löndum er litið á áfengi sem matvöru, er kannski ekki eins erfitt að minnka neysluna t.d. úr fjórum rúgbrauðssneiðum í tvær.  Þetta er samt ansi snúið og ég ætla ekki að spá meira í þetta. 

 


Höfundur

Viðar Jónsson
Viðar Jónsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband