Leita í fréttum mbl.is

Lifrarbólga C-Kemur það mér við?

 Árið 1983 greindist HIV-vírusinn.  Almenningi var brugðið, ef til vill mest vegna þess að læknavísindin gátu ekkert gert.  Hommarnir voru hinir óhreinu.  Það fór af stað mikill áróður og fræðsla og allt aðal fólkið var sett á veggspjöld og talaði vel um smokka, en það er liðin tíð og nú ríkir þögnin.  Á Íslandi hafa um 200 veikst og rétt innan við 40 látist.  Ný og dýr lyf valda því að flestir geta lifað með sjúkdóminn, en sumir þola þau ekki.  Þessi lyf standa auðvitað ekki til boða nema í ríku löndunum.  Í heiminum smitast 1 á 6 sekúndna fresti og 1 deyr á 10 sekúndna fresti.  Er það svartsýni að segja að þetta sé ennþá bara rétt að byrja?  Kannski, því nýjar fréttir frá Afríku herma að mikið hafi dregið úr útbreiðslunni.

Vímuefnaneysla jókst mjög á hippatímanum og fer stöðugt vaxandi. Eitt af því sem fylgt hefur ofneyslu vímuefna er lifrabólga C eða HCV.  Um 1975 áttuðu vísindamenn sig á því að eitthvað var meira á ferðinni en lifrarbólga A eða B, en það var ekki fyrr en 1987 að hinn örsmái HCV-vírus fannst.  Vírusinn hefur smitast mest með sprautunálum (90%), einnig með blóðgjöf, kynlífi, tattú og að nota tannbursta eða rakvél annara.  Um 15% segjast ekki vita hvernig þau smituðust.  Fólk getur verið einkennalaust lengi en flestir sem smitast fá langvinna sýkingu sem ekki gengur yfir án meðferðar sem getur læknað en dugar ekki alltaf.  Meðferð, sem líkja má við krabbameinsmeðferð, tekur marga mánuði og eru batalíkur mismunandi, þeir sem standa verst (genatýpa 1) þurfa 48 vikna meðferð en batalíkur eru aðeins rúm 50%.  Í heiminum eru 150-200 milljónir sýktar, eða 3%, og af þeim eru 70-80% með virka sýkingu.  Af þeim munu 15-20% fá skorpulifur (ónýt lifur) eftir 20-30 ár og 1-5% fá lifrarfrumukrabbamein.  HCV er algengasta orsök lifrarígræðslu í BNA, en eins og allir vita liggja líffæri ekki á lausu og svo getur nýja lifrin einnig sýkst. 

 Nú er meðferð þannig að sjúklingar sprauta sig einu sinni í viku og gleypa helling af pillum, aukaverkanir geta verið slæmar, jafnt andlegar sem líkamlegar, og margir verða óvinnufærir.  Lyfin eru dýr og fólk fær ekki að fara í meðferð nema að sæmilegar líkur séu á því að það haldi hana út, hafi t.d. verið edrú í góðan tíma.  Hér á landi er vitað um ca. 650 sem eru smitaðir.  Langur meðgöngutími veldur því að nú er hætt við að aðeins sjáist toppurinn af ísjakanum og má heilbrigðiskerfið fara að búast við mikilli aðsókn.  Læknar hafa lýst stórum áhyggjum og tala um hörmungar, en það heyrir það enginn.  Sprautufíklar, núverandi og fyrrverandi, eru nú hinir óhreinu.   Þeir sem sýkjast eru gjarnan spurðir hvernig þeir hafi smitast, en sá sem er með lungnakrabba er ekki spurður þó að hann sé með sígarettu. 

Mörgum sjúklingum finnst að þeir standi einir í meðferðinni og þurfi t.d. að fá sinn fróðleik á netinu, en þess ber að geta að Sigurður Ólafsson læknir hefur gert margt gott.  Miðað við HCV er hreinn lúxus að fá hjartaáfall, en það fékk undirritaður í sumar.  Það eru stærðarinnar deildir, skurðdeildir, þræðingarstofur, endurhæfing, göngudeild, símatími og Reykjalundur, ekki friður fyrir fólki sem vill allt fyrir mann gera.  En það er gert upp á milli sjúklinga eftir því hvaðan þeir koma. Skyldi heilbrigðisráðherran vita af þessu? 

Nú þarf einfaldan og skýran áróður, en hið opinbera sýnir engan lit.  Verður þá ekki að leita til ríku fyrirtækjanna, það mætti byrja á nokkrum heilsíðuauglýsingum og blöðin munu eflaust gefa afslátt.  Hvað ætli annars að rauða maraþonherferð Glitnis hafi kostað, en þar er eins og að almannatengslafólk hafi gjörsamlega misst stjórn á sér við að bæta ímynd bankans með því að tengja hann íþróttum.  Starfsfólkið þorir ekki öðru en að hlaupa.  En var ekki ímyndin nokkuð góð fyrir?  Það þyrfti ekki nema brot af þeim kosnaði.  En það er víða þörf og það er víða nauðsyn.

Ég hef ekki neina faglega þekkingu á HCV, hef einungis kynnst þessu í fjölskyldu minni, og vona að ekki sé hér margt missagt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Viðar Jónsson
Viðar Jónsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband