Leita í fréttum mbl.is

Kristilegt siðgæði í Árneshreppi

Siggi Guðjóns lét ekki eiga neitt hjá sér um hugmynd borgarbarns um viðbótarkirkju norður í Árneshreppi á Ströndum, ekki frekar en endranær.  Kom þangað nokkrum sinnum á ýmsum árstímum fyrir 10-12 árum og taldist í öll skiptin vera fært, en ekki var ég laus við einmannaleika á veturna því leiðin er löng, svo þurfti að fjarlægja stærðar grjót af veginum, nú og svo var það snjórinn.  Mér leið einna best í hvítum Lada Sport, blessuð sé minning þeirra.  Það var síberíulykt í þeim.

Það er fagurt í Trékyllisvík, fallegast í sól og blíðu.  En söfnuðurinn verðskuldar ekkert gott í kirkjumálum.  Það er ekki beint neyðarástand í húsnæðismálum biskupsins, sennilega ekki meiri fermetrafjöldi á mann í nokkurri stofnun sem enginn kemur inn í.  A.m.k. 200 á biðlista á hjartadeildinni því það vantar gjörgæslupláss, samt eru hjartasjúklingar ofdekruðustu sjúklingar landsins.  Læknarnir eru meira að segja farnir að útfæra og teikna aukapláss uppi á þaki!

Ég held að guð fyrirgefi það tæplega þegar söfnuðurinn gerði brottrækan séra Jón sem hafði þjónað þar í mörg ár, var reyndar sérstæður og litríkur klerkur, en hvar eiga menn að vera sérstakir ef ekki þarna norðurfrá?  Þetta hefur alla tíð þótt kostur á prestum á Íslandi og verið tilbreyting í fásinninu.  En fyrir kom þó, að fólk var ekki með á nótunum um hvort prestarnir væru svona mikið lærðir eða svona bilaðir.  Borgarbarnið, sem brátt verður orðinn hreppsstjóri, sér greinilega kosti þess að vera sérstakur.

Ráðherra kippti á dögunum kristilegu siðgæði út úr skólabyggingum landsins, líka úr þeim ágæta Finnbogastaðaskóla.  En hvernig á svo að mæla hvort skólastjórarnir hlýða þessari nýju reglugerð?  Það þarf að finna upp alveg nýjar og áður óþekktar græjur til þess.  Kannski eitthvað utan úr geimnum, eða ofarlega úr geimnum?

Ég var svo lánsamur að vera í nokkrum kennslustundum í Reykholti hjá Jónasi Árnasyni, þeim skemmtilega kennara, rithöfundi, pólitíkusi og skapmanni.  Hann benti okkur á þá augljósu staðreynd, að það væri ekkert vit í öðru en að galopna allar kirkjur og reka inn útigangshross landsins.  Ekki var talað um að þarna hefði orðið kristilegur siðgæðisbrestur í skóla, og var þó talsverð kristni í Reykholti, og væri það t.d. uppfært til nútímamælinga, jafngilti það í dag 12,7 krherzum, sem nú þykir dágott á biskupsstofu. 

Þetta er orðið allt of langt blogg.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Viðar Jónsson
Viðar Jónsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband