Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
31.8.2007 | 10:30
Bláskógabyggð - beita börnum fyrir sig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2007 | 12:04
Chernobyl = 400 Hirosimasprengjur.
Það tók svo á að skrifa um yfirvofandi ógn við Þingvallavatn um daginn, að ég hef ekkert bloggað síðan. Ég held að ég hafi fengið snert af fjölnismannafíling. En sum umhverfisslysin gera ekki boð á undan sér, og þó.
Ég var að komast að því að ég vissi sáralítið um Chernobyl, reyndar eins og flest annað. Það sem gerðist þar var eitthvað á þá leið, að gera átti tilraun með öryggiskerfi í kjarnorkuverinu, en þegar hún fór að ganga illa var hætt við. Þegar næturvaktin kom, en hún hafði minni reynslu, vissu þeir ekki að hætt hafði verið við og allt fór að fara úr böndunum, kælingin gekk ekki, og daginn eftir varð sprengingin, þann 26.apríl 1986. Þetta er mesta umhverfisslys sögunnar og það er langt frá því að því sé lokið. Það kviknaði í og á 10 dögum barst út geislavirkni sem jafngilti 400 Hirosimasprengjum yfir a.m.k. 150 þúsund ferkílómetra. Það komu fljótt 200 þúsund ungir hermenn en alls er talið að um 800 þúsund manns hafi unnið að hreinsuninni. Hefðu viðbrögðin verið svona á vesturlöndum? Nú er sagt að þau séu öll veik og að börn þeirra látist mörg ung. Menn tóku af sér grímur vegna hitans, konur þvoðu hlífðarföt í höndunum o.s.frv. Nú er sagt að 212 þúsund hafi dáið og talið að 93 þúsund hafi látist úr krabbameini. Sem dæmi þá missti Hvíta-Rússland 25% íbúanna í heimstyrjöldinni, nú þjást 20% vegna Chernobyl og það deyja 2 á dag, þriðjungur landsins er mengaður. Lýsingar á vansköpun barna og sjúkdómum eru svo hrikalegar að það er ekki hægt að hafa það eftir. Það hefur fundist vansköpun í 18 kynslóðum fugla. Geislavirkni í trjám er enn að vaxa. Í Bretlandi eru enn hömlur á mjólkurframleiðslu á 375 býlum sem liggja hátt, t.d. í Snowdonia og Lake District, eftir 21 ár! Víða á ,,dauðasvæðum býr enn veikt fólk með veik börn, neitar að fara, sér engan tilgang í því. Er þetta nýr raunveruleiki? Einhver sagði, að eftir Auschwitz er maðurinn sá sami og fyrir Auschwitz. Á það við um Chernobyl? Bent hefur verið á að siðmenning óttans sé að breytast í siðmenningu stórslysa, framfarirnar hættulegar fyrir mannkynið og náttúruna. Fellibyljir og flóð valda svipuðu tjóni og stríð. Nú þegar afleiðingar hinnar rosalegu mengunar af völdum olíu og kola eru farnar að blasa við, segir enginn neitt þegar á að reisa ný kjarnorkuver. Ef til vill verður hægt að skjóta geislavirkum úrgangi út í geiminn og byrja að menga þar, það er a.m.k. smá pláss þar.Söfnuður rétttrúaðra gyðinga´(CCOC) hefur undanfarin ár flutt um 2500 6-12 ára börn frá Chernobyl-svæðinu til Ísrael í um 70 flugferðum. Börnin munu ekki snúa aftur. Verða börnin að vera gyðingar? Foreldrar fara ekki með, ástandið hlýtur að vera slæmt þegar foreldrar samþykkja þetta. Söfnuðurinn kvartar mikið yfir hægfara skrifræði við að fá leyfi fyrir börn. En er það ekki niðurlæging fyrir stjórnvöld að viðurkenna að þau séu ófær um að hugsa um veik börn? Í Hvíta-Rússlandi, t.d., þá hrópar Lukasjenko forseti á peninga og aðstoð í öðru orðinu, en segir að allt sé í lagi í hinu.
Hjá þessum hörmungum finnst ef til vill einhverjum hégómi að hafa áhyggjur af Þingvallavatni, en við verðum að skila því til framtíðarinnar sem okkur er trúað fyrir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2007 | 13:49
#$#$%$$%$# Þingvallanefnd!
Hver er að heimta þennan veg? Er það Bláskógabyggð, sem skreytir sig með stolnum fjöðrum og segir: ,,Nýtt nafn sveitarfélagsins er fengið að láni úr Þingvallasveit og tengist birkinu og bláma vatnsins." Það er ekkert sem réttlætir þessi fyrirhuguðu náttúruspjöll, ekki einu sinni það að þeir í Bláskógabyggð vilji selja fleiri lóðir undir sumarbústaði. Vilji menn skoða vef sveitarfélagsins, undir liðnum umhverfismál, er það fljótgert því þar stendur ekki eitt einasta orð! Aðeins þrjú nöfn: Sigurður St. Helgason, Snæbjörn Sigurðsson og Sigrún Reynisdóttir. Vonandi er enn tími til að upplýsa fólk svo að það sjái villu síns vegar.
Það reyndist kolrangt að halda að hæstvirt Þingvallanefnd bæri hag Þingvallavatns fyrir brjósti. Ekki er líklegt að t.d. Skipulagsstöfnun eða þá Vegagerðin geri eitthvað sem tengist Þingvallavatni í trássi við nefndina. Í lögum segir: ,,Land þjóðgarðsins skal vera friðað í því skyni að varðveita ásýnd þess sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari." Og einnig: ,,Vernda skal lífríki Þingvallavatns..."
Fer þetta eitthvað á milli mála? En hverjir eru í Þingvallanefnd? Sjö þingmenn auðvitað, sjö dvergar í umhverfismálum. Ekki einn náttúrufræðingur á þar fast sæti! (Jú,jú, Össur og urriðinn). Það hafa verið nefndir bitlingar. Þingvallavatn er nú á heimsminjaskrá, og segir það ef til vill einhverjum eitthvað, en þegar þessi vá er fyrir dyrum ræðir nefndin hvort eigi að höggva fáein tré eða hversu mörg klósett eigi að vera á Hótel Valhöll. Það verður bara að vona að Forsætisráðuneytið grípi hér í taumana, en því miður þá held ég að núverandi umhverfisráðherra þori ekki að setja hnefann í borðið, þrátt fyrir að hér sé einstakt tækifæri til að vinna sér sess í Íslandsögunni...en orðstír deyr aldregi...
Sonnetta Jakobs J. Smára, Þingvellir, hefst á þessari fallegu ljóðlínu: ,,Sólskinið titrar, hægt um hamra og gjár." Skáldið lýkur kvæðinu með því að segja, að á fögru sumarkvöldi megi heyra sögu landsins sem þyt í laufi. Það er hætt við því, að þeim sem ábyrgir verði fyrir því að þessi orð verði innihaldslaus, með eyðingu náttúrunnar, muni reynast erfiður dauðinn.
Hér gæti verið ástæða til að rifja upp, t.d. fyrir Þingvallanefnd, að á 17. júni 1994, klukkan korter gengin í tólf, á 50 ára afmæli lýðveldisins á Þingvöllum, vitnaði Geir H. Haarde í þetta sama kvæði í ræðu og talaði um Þingvelli sem helgan stað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.9.2007 kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2007 | 12:18
Stuðmenn við kistuna?
Áhugi minn á dánartilkynningum hefur farið vaxandi í seinni tíð. Af þeim sökum varð ég var við stórlega ýktar fréttir af andláti Stuðmanna, Hljómsveit allra landsmanna. Sumum finnst að þeir séu orðnir helst til langlífir. Sjaldan launar kálfur ofeldi. Hljómsveitin hefur haft ofan af fyrir landsmönnum, með hléum þó, allt frá því að Sumar á Sýrlandi kom út. Ég hlustaði fyrst á hana á Sellátrum í Tálknafirði, en þar fékk ég einnig, í fyrsta og eina skiptið, signa grásleppu og hvorugu mun ég gleyma.
Ef til vill voru það textarnir, en fram að því höfðu hljómsveitir fengið gamla karla til að semja þá og voru í engu sambandi við tíðarandann. Þegar hér var komið voru Bítlarnir komnir og farnir og Stones byrjaðir á sínum besta áratug. Uppskriftir af textunum voru í Óskalögum sjómanna og Óskalögum sjúklinga, en þann þátt kölluðu húmoristar Við kistuna. Þegar mér verður hugsað til þess þáttar heyri ég alltaf Ó, Jesú bróðir besti með Þorsteini Fríkirkjpresti, en ekki Yesterday eða You Better Move on. Það er ótrúlegt hvernig minnið getur leikið mann. Nefna mætti lög eins og Bláu augun þín, Fyrsta kossinn og Slappaðu af. Ég veit að það á ekki að vera með alhæfingar, en það er mest gaman. Sjálfsagt voru einhverjir textar góðir.
Stuðmenn eru miklir lagasmiðir, frábærir hljóðfæraleikarar og hafa haft góða söngvara. Þetta eru vanir menn, oft með skemmtilega kímnigáfu. Mér finnst Með allt á hreinu best, hvert lagið öðru betra og svo voru þau negld inn í þjóðina með vinsælustu kvikmynd Íslandssögunnar. Heyrði bankatónleikana með öðru eyranu og mikið var sándið lélegt og hjá Stuðmönnum hreint skemmtarasánd. Hljómsveitin hefur nýlega misst tvær skrautfjaðrir en vonandi er Jakob með einhverja ása upp í erminni. Ísland mun ekki bera sitt barr án Stuðmanna. En það er að koma haust.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2007 | 02:15
Ber og rjómi eða rakettur.
Gerði ekkert menningarlegt, hvorki í dag né í kvöld. Ákvað að fara upp í sveit til að losna við þessa menningu í lofttæmdu umbúðunum. en ég mundi þá missa af rakettunum. Ég er með ferðafóbíu og fer ekki ótilneyddur upp í Breiðholt. En ég trúi á mannsandann og framfarir og því varð fyrir áfalli þegar ég rak mig á að ekki er hægt að komast frá Reykjavík fyrir endalausum hringtorgum. Ég hélt að markmið Vegagerðarinnar væri að gera vegi greiðfæra, en þeir eru kannski alveg komnir út í samgöngur á sjó? Hver húsaþyrping virðist eiga sitt hringtorg og í Mosfellssveit er allt gert til að torvelda umferð. Er hin tilgangslausa Umferðarstofa með puttana í þessu, þeir sem telja hættulegt að aka á 100 á malbiki í blíðu? Lífið er varasamt. Það verður að sekta ökufanta svo þeir finni fyrir því, en ekki láta þá stjórna hönnun umferðarmannvirkja. Hvað ætli að verði mörg hringtorg á Sundabrautinni?
Í sveitinni fékk ég ber og rjóma og ef að menn halda að lífið verði eitthvað betra en það, þá er það misskilningur. En það skyggði örlítið á að ég myndi ekki sjá raketturnar, en það er fátt sem mér finnst skemmtilegra en að horfa á þær. Það voru sannarlega tímamót þegar Kínverjarnir fundu upp púðrið. Á 12.öld byrjuðu þeir að sprengja, m.a. til að reka burt illa anda. Hvað annað?
Sem ég bruna í gegnum Tíðaskarð á heimleiðinni birtist mér ekki rakettusjóið. Ég stöðva auðvitað strax bílinn og stari. Úr þeirri fjarlægð var þetta eins og stór loftbelgur með skrautsýningu innan í. Sæluhrollur. Ég á ennþá eftir að fara í pílagrímsferð til Madeira í Portúgal, en þar verður dýrðin mest þegar nýtt ár gengur í garð. En ég fer aldrei aftur út úr bænum.
Dægurmál | Breytt 20.8.2007 kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2007 | 05:39
Lifrarbólga C-Kemur það mér við?
Árið 1983 greindist HIV-vírusinn. Almenningi var brugðið, ef til vill mest vegna þess að læknavísindin gátu ekkert gert. Hommarnir voru hinir óhreinu. Það fór af stað mikill áróður og fræðsla og allt aðal fólkið var sett á veggspjöld og talaði vel um smokka, en það er liðin tíð og nú ríkir þögnin. Á Íslandi hafa um 200 veikst og rétt innan við 40 látist. Ný og dýr lyf valda því að flestir geta lifað með sjúkdóminn, en sumir þola þau ekki. Þessi lyf standa auðvitað ekki til boða nema í ríku löndunum. Í heiminum smitast 1 á 6 sekúndna fresti og 1 deyr á 10 sekúndna fresti. Er það svartsýni að segja að þetta sé ennþá bara rétt að byrja? Kannski, því nýjar fréttir frá Afríku herma að mikið hafi dregið úr útbreiðslunni.
Vímuefnaneysla jókst mjög á hippatímanum og fer stöðugt vaxandi. Eitt af því sem fylgt hefur ofneyslu vímuefna er lifrabólga C eða HCV. Um 1975 áttuðu vísindamenn sig á því að eitthvað var meira á ferðinni en lifrarbólga A eða B, en það var ekki fyrr en 1987 að hinn örsmái HCV-vírus fannst. Vírusinn hefur smitast mest með sprautunálum (90%), einnig með blóðgjöf, kynlífi, tattú og að nota tannbursta eða rakvél annara. Um 15% segjast ekki vita hvernig þau smituðust. Fólk getur verið einkennalaust lengi en flestir sem smitast fá langvinna sýkingu sem ekki gengur yfir án meðferðar sem getur læknað en dugar ekki alltaf. Meðferð, sem líkja má við krabbameinsmeðferð, tekur marga mánuði og eru batalíkur mismunandi, þeir sem standa verst (genatýpa 1) þurfa 48 vikna meðferð en batalíkur eru aðeins rúm 50%. Í heiminum eru 150-200 milljónir sýktar, eða 3%, og af þeim eru 70-80% með virka sýkingu. Af þeim munu 15-20% fá skorpulifur (ónýt lifur) eftir 20-30 ár og 1-5% fá lifrarfrumukrabbamein. HCV er algengasta orsök lifrarígræðslu í BNA, en eins og allir vita liggja líffæri ekki á lausu og svo getur nýja lifrin einnig sýkst.
Nú er meðferð þannig að sjúklingar sprauta sig einu sinni í viku og gleypa helling af pillum, aukaverkanir geta verið slæmar, jafnt andlegar sem líkamlegar, og margir verða óvinnufærir. Lyfin eru dýr og fólk fær ekki að fara í meðferð nema að sæmilegar líkur séu á því að það haldi hana út, hafi t.d. verið edrú í góðan tíma. Hér á landi er vitað um ca. 650 sem eru smitaðir. Langur meðgöngutími veldur því að nú er hætt við að aðeins sjáist toppurinn af ísjakanum og má heilbrigðiskerfið fara að búast við mikilli aðsókn. Læknar hafa lýst stórum áhyggjum og tala um hörmungar, en það heyrir það enginn. Sprautufíklar, núverandi og fyrrverandi, eru nú hinir óhreinu. Þeir sem sýkjast eru gjarnan spurðir hvernig þeir hafi smitast, en sá sem er með lungnakrabba er ekki spurður þó að hann sé með sígarettu.
Mörgum sjúklingum finnst að þeir standi einir í meðferðinni og þurfi t.d. að fá sinn fróðleik á netinu, en þess ber að geta að Sigurður Ólafsson læknir hefur gert margt gott. Miðað við HCV er hreinn lúxus að fá hjartaáfall, en það fékk undirritaður í sumar. Það eru stærðarinnar deildir, skurðdeildir, þræðingarstofur, endurhæfing, göngudeild, símatími og Reykjalundur, ekki friður fyrir fólki sem vill allt fyrir mann gera. En það er gert upp á milli sjúklinga eftir því hvaðan þeir koma. Skyldi heilbrigðisráðherran vita af þessu?
Nú þarf einfaldan og skýran áróður, en hið opinbera sýnir engan lit. Verður þá ekki að leita til ríku fyrirtækjanna, það mætti byrja á nokkrum heilsíðuauglýsingum og blöðin munu eflaust gefa afslátt. Hvað ætli annars að rauða maraþonherferð Glitnis hafi kostað, en þar er eins og að almannatengslafólk hafi gjörsamlega misst stjórn á sér við að bæta ímynd bankans með því að tengja hann íþróttum. Starfsfólkið þorir ekki öðru en að hlaupa. En var ekki ímyndin nokkuð góð fyrir? Það þyrfti ekki nema brot af þeim kosnaði. En það er víða þörf og það er víða nauðsyn.
Ég hef ekki neina faglega þekkingu á HCV, hef einungis kynnst þessu í fjölskyldu minni, og vona að ekki sé hér margt missagt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 05:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2007 | 14:21
Guðrún og Tarkovsky
Það eru helst ótrúlegar tilviljanir sem geta valdið því að ég efist um að þetta sé allt ein stór tilviljun. Nýlega keypti ég á netinu, nánar tiltekið í Hong Kong, pakka með öllum myndum Andrei Tarkovskys, hins mikla meistara kvikmyndanna. Þetta eru 8 myndir, kostuðu 600 kr. þar en alls 4000 kr, sjálfsagt einhver sjóræningjaútgáfa. Ég tel að netið sé ekki ofmetið. Ég horfði fyrst á útskriftarmyndina frá 1960, Valtarinn og fiðlan, falleg ,,barnamynd" sem er 45 mín. og gerist í góðu samfélagi sósíalismans. Þá byrjaði ég á Fórninni, sem var síðasta mynd Tarkovskys, gerð í Svíþjóð 1986. Í henni er mikið talað, en ég hef lítið hlustað á sænsku í seinni tíð og gat ég haft franskan texta og var það skárra.
Ég var búinn að vera að skoða ýmsa hluta nokkur kvöld í vikunni en átti endinn eftir þegar svo vill til á laugardaginn að í Lesbókinni birtist einstakt viðtal við hina hógværu stórleikkonu, Guðrúnu S. Gísladóttur, sem einmitt leikur eitt aðalhlutverkið í Fórninni. Viðtalið var um þá reynslu hennar og var eins og að maður hefði fengið að vera viðstaddur upptökurnar. Myndin er mikið listaverk og er vart hægt að hugsa sér að kvikmyndataka geti orðið betri. Tarkovsky lést stuttu eftir frumsýningu myndarinnar, 54 ára gamall, og hafði þá aðeins gert 7 (8) myndir. Sovétkerfið reyndist honum erfitt. Til samanburðar mætti nefna, að hinn þýski Fassbinder, sem lést 37 ára, gerði 40 myndir. Svo er það spurningin um magn og gæði. Guðrún er mikill listamaður og þó að ég þekki ekki mikið til í leikhúsi, sá ég hana í Bakkynjunum í vetur, umdeildri sýningu, og bar hún af. Að leika aðalhlutverk í mynd eftir Tarkovsky hlýtur að vera einn mesti frami íslensks leikara. Það verður að fara að sýna Fórnina aftur hér, ásamt öðrum myndum Tarkovskys því hann virðist vera æ meira metinn. Þetta var sérlega ánægjuleg og fróðleg tilviljun. Kannski að það sé eitthvað....
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2007 | 16:32
Íþrótt eða ekki íþrótt
Jæja, þá er Alfreð Gíslason kominn undan feldinum og sagði já. Þetta mun gleðja marga og afrek í íþróttum hafa góð áhrif á þjóðarsálina. Þó vel hafi gengið í handboltanum síðustu árin virðumst við ekki hafa náð okkur ennþá eftir áfallið mikla þegar heimsmeistaramótið var haldið hér, sællar minningar. Er það sambærilegt við 14-2? Hún er a.m.k. næstum horfin þessi mikla stemming sem var svo oft í Höllinni, en tímarnir breytast. Það er ekki algengt, hvorki í handbolta né fótbolta, að landsliðsþjálfarar beri gæfu til að hætta á toppnum. Það gerist ekki fyrr en allir eru farnir að tala illa um þá og búnir að steingleyma öllum góðum árangri. Laun heimsins... Þó er a.m.k. ein undantekning, það var þegar Helena fagra, landsliðsþjálfari kvenna var rekin. Hún hafði náð frábærum árangri og var þetta óskiljanleg ákvörðun. Kannski var þetta ekki allt slétt og fellt hjá Eggerti og co. En Alfreð er okkar maður.
Á tímum stöðugs og þreytandi hávaða var gleðilegt að heyra um væntanlega keppni í hvísli. Þetta gæti orðið holl hugaríþrótt og ég spái því að fljótlega spretti upp hvíslkennarar og hvíslstúdíó, sbr. jógakennara og jafnvel hláturjógakennara. Þó svo að þessi hugaríþrótt, hvíslið, brenni ekki eins mörgum kaloríum og færiböndin í heilsuræktarstöðvunum, er þetta verðlaunahugmynd.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2007 | 01:15
Margt býr í frostinu
Lítil frétt AP af Suðurheimsskautinu vakti athygli mína. Tekist hafði að lífga við örverur úr elsta ís jarðarinnar. Aldurinn var frá hundrað þúsund upp í átta milljón ár. Örverur úr yngsta ísnum tóku að vaxa er þær fengu hita og næringu en þær úr eldri í uxu mun hægar og var fylgst með þeim í heilt ár, en það tekur viku að rækta bakteríu. Eflaust segir þetta ýmislegt um möguleika lífs á jörðinni svo og á öðrum plánetum. Hinn mikli geimfræðingur, Stephen Hawking, hefur bent á að framtíð mannkynsins sé úti í geimnum. Við verðum að eyða miklum peningum í rannsóknir og einnig að fræða almenning þannig að allir skilji. Margir segjast fá svimakast sé minnst á geiminn og verða að setjast niður.
Einhverra hluta vegna vegna kom teiknimyndakóngurinn Walt Disney upp í hugann, en hann gafst ekki upp á lífinu og lét frysta sig í trú á framfarir í læknavísindum. Þetta gerðu reyndar fleiri milljónamæringar, sem gátu borgað rafmagnsreikninginn, en flestir töldu nú að þetta væri bara enn ein dellan í Ameríku. Ef til vill fá örverurnar frá Suðurheimsskautinu einhverja til að endurskoða afstöðu sína.
Fólksflótti úr sjávarþorpum og harkalegur niðurskurður á veiðiheimildum hlýtur að kalla á róttækar og óhefðbundnar aðgerðir. Atvinnuþróunarfólk situr með sveittan skallann, sveitarstjórnir senda frá sér tilkynningar og heimta þetta og hitt, koma t.d. með tillögu um olíuhreinsunarstöð, orkufrekar gagnageymslur fyrir netfyrirtæki og endalaus jarðgöng, allt prýðilegar tillögur. En er ekki verið að leita langt yfir skammt? Við eigum nóg rafmagn og þar sem það blasir við að æ fleiri munu láta frysta sig, og gleymum því ekki að við Íslendingar erum líka orðnir ríkir, er þá ekki ráð að við tækjum að okkur að geyma frosið fólk? Tóm frystihús með frystitækjum og frystigeymslum eru í öllum sjávarplássum. Og frosið fólk með sérþarfir og nóga peninga gæti jafnvel fengið að vera um borð í frystitogara. Svo þarf heldur ekkert umhverfismat.
Dægurmál | Breytt 10.8.2007 kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Af mbl.is
Erlent
- ESB bannar notkun á BPA í umbúðum um matvæli
- Níu handteknir vegna brunans á skíðahótelinu
- Trump myndi hugnast kaup Musks á TikTok
- Hafa til klukkan 17 til að senda starfsmenn í leyfi
- Heita því að tryggja þjóðaröryggi sitt
- Sakar biskupinn um viðurstyggilegan tón
- Fjórir særðir eftir stunguárás í Tel Aviv
- Náðun stuðningsmanna Trumps vekur ólík viðbrögð
- Skotinn til bana við skyldustörf
- Sársauki okkar er nístandi