Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Gufa í umhverfisráðuneyti!

Nei, það er ekki átt við að raki sé í ráðuneytinu.  En það fór því miður eins og hér var spáð, að frú Þórunn þyrði ekki að gera neitt sem gæti valdið teiknibólu í ráðherrastólnum.  Hún ætlar að hefja eyðileggingu Þingvallavatns með lagningu Gjábakkavegar.  Hún tekur ekkert mark á viðvörunum virtustu vísindamanna.

Því er borið við, að vitlaus ráðherra hafi þegar tekið ákvörðunina, að hin auma Þingvallanefnd, sem Alþingi kýs til að vernda Þingvelli, hafi ekki gert athugasemd við vegagerðina því hún hafi ekki skipulagsvald! (má þó skipuleggja klósettin á Hótel Valhöll).  Svo er greinilega tekið mark á þeirri þvælu sem gáfnaljósin í forystu Bláskógabyggðar bera fram sem rök fyrir vegagerðinni.

Fólk býst ekki við miklu af stjórnmálamönnum nú til dags, hvorki að þeir hafi hugsjónir né breyti samkvæmt samvisku sinni.  Margir þeirra standa í þeirri trú að þeir séu hugsjónamenn, en hugsjónir eru látnar víkja þegar um eigin hagsmuni eða flokksins er að tefla.  Ég leyfi mér að efast umfrú Þórunn hafi farið eftir samvisku sinni, en þegar ekki fæst stuðningur við það eina rétta er ekki annað að gera en segja af sér, að öðrum kosti mun hún sitja uppi með skömm á meðan land byggist. 

Hef aldrei getað lært vísu, en rembdist við að muna eina sem ég heyrði fyrir mörgum áratugum, því mér fannst mikið liggja við, kannski var hún svona (frúin gæti reynt að hafa hana yfir verði hún andvaka): 

Landið er selt og svikið / svívirðing aldrei dvín / það þarf ekki að þykja mikið / þótt Þingvellir hefni sín.  

Það er bannað með lögum að spilla Þingvöllum og Þingvallavatni.  Það er hafið yfir allan vafa.  En þrátt fyrir það hefur skapast þetta hættuástand.  Hefur þá ekki átt sér stað lögbrot?  Einhver mundi segja að það lægi í hlutarins eðli.  Einnig leikur grunur á að áliti og varnaðarorðum vísindamanna hafi verið stungið undir stól í ráðuneytinu, og mætti ekki ætla það sé lögbrot þegar um er að ræða umhverfisráðuneyti?  Vonandi fara þessir vösku vísinda-og náttúruverndarmenn með þetta nauðgunarmál gegn náttúrunni fyrir dómstóla.

En þeir þurfa stuðning.  Hvar er nú Framtíðarlandið?  Eru þau föst í Hálslóni, en það er því miður orðinn hlutur?  Landvernd segist vera búin að gera allt.  Það væri liðsauki í baráttumanninum Ómari Ragnarssyni.  Þú gætir örugglega látið gott af þér leiða.

 


Oftúlkun?

Ég rak augun í stórfrétt á vefsíðu Moggans í kvöld og fyrirsögnin var: Öryggisráðið fundar vegna Mýrarinnar. 

Jæja, þá er Baltasar Kormákur búinn að slá í gegn.  En það hlýtur að vera eitthvað meiriháttar vesen í uppsiglingu þegar Öryggisráðið er farið að gagnrýna bíómyndir.  Hef ekki séð Mýrina, en það hljóta að vera einhverjar rosalega djarfar senur í henni eða þá brandarar um Islam.  Ef til vill finnst þeim plakat myndarinnar ömurlega venjulegt.  Eða þá að þeim finnst að taka verði einhverja listræna áhættu þegar menn eiga seðlaprentsmiðju.  En er ekki illt umtal skárra en ekkert umtal?  Já, það blasti ekki alveg við hvernig ætti að túlka þetta.

En viti menn!  Allt í einu hrekkur sjónin í mér í fókus og þá stendur í Mogganum:  Öryggisráðið fundar vegna Myanmar.  Og þá skall á grár hversdagsleikinn, enn einu sinni.


Sætt er sameiginlegt skipbrot.

Ég nefndi það hér um daginn hve það væri mikil lukka að fá kransæðastíflu en ekki lifrarbólgu C.  Það er vegna þess að afstaða heilbrigðiskerfisins (og almennings?) til þessara tveggja sjúkdóma er gjörólík.  Sé það hjartað, þarf maður helst að fara huldu höfði því það er ekki friður fyrir þeim sem vilja allt fyrir mann gera, en sé það lifrin, stendur fólk eitt í t.d. 48 vikna meðferð á mjög sterkum lyfjum sem fylgja erfið andleg og líkamleg veikindi, og svo eru batalíkurnar e.t.v. undir 50%! 

Ég er ekki kominn til himna, en er á himneskum stað, Reykjalundi.  Þar er ótrúlega öflug starfsemi sem miðar að því einu að auka lífsgæði fólks.  Þar eru hjartasjúklingar (auðvita taldir upp fyrstir), fólk sem finnst hversdagsleikinn of grár, fólk sem hefur lent í vítahring vegna matarfíknar, fólk sem hefur fengið heilablæðinu, fólk sem hefur orðið fyrir slysi o.s.frv.  Mér líður eins og að ég væri fluttur heim til mömmu, það er passað upp á allt fyrir mann, maður er rekinn til að gera allt sem hefur verið trassað og maður er sendur snemma í háttinn.  Sem sagt, himneskt. 


Bláskógabyggðarbull.

Greindarvísitala leiðtoga Bláskógabyggðar virðist vera langt fyrir neðan það sem eðlilegt má teljast.  Oddvitinn segir, í tilefni af því að vatnalíffræðingur varar við því að mengun frá Gjábakkavegi muni spilla framtíðarvatnsbóli höfuðborgarsvæðissins, að vegurinn hafi verið ein af forsendum sameiningar sveitarfélaga í Bláskógabyggð. 

Hvaða máli skiptir það þegar um er að ræða verndun Þingvallavatns?  Hann talar um að 3 börn þurfi að sitja lengi í skólabíl og skilur greinilega ekki að hægt er að hafa skóla nær heimilum þeirra. 

Hann kallar álit Péturs M. Jónassonar, fyrirverandi forseta Alþjóðasamtaka vatnalíffræðinga og prófessors við Kaupmannahafnarháskóla, sem varað hefur við Gjábakkavegi, sleggjudóma! 

Oddvitanum, Margeiri Ingólfssyni, finnst lágmark að menn sýni fram á það sem þeir eru að tala um með rannsóknum!  Á þá fyrst að eyðileggja vatnið svo að hægt sé að rannsaka skaðann?  Þessu liði í Bláskógabyggð er greinilega ekki sjálfrátt að vilja stuðla að umhverfisslysi.

Þetta sveitarfélag ætti að skipta um nafn og heita Sumarbústaðabyggð.  Að lokum legg ég til að Bláskógabyggð verði lögð í eyði.


Bob Dylan fær Nóbelsverðlaunin!

Mikið væri nú ánægjulegt að sjá þessa fyrirsögn ofarlega á forsíðu Moggans!  Jafnvel þótt það væri aprílgabb.  Dylan er einn mesti listamaður samtímans.  Besti lagasmiður síðustu áratuga og textarnir, sem hafa verið aðalsmerkið, verða æ betri.  Dylan er stórskáld.  En þetta vita nú allir.  Ég fékk fyrsta umtalsverða músik-kikkið þegar ég hlustaði á fyrstu Stones-plötuna með stúlku sem heitir Álfheiður og stal svo frá henni plötunni.  Er ennþá með samviskubit.  Nú er ég því miður löngu hættur að fá kikkið, nema þegar nýtt kemur frá Bob Dylan og síðast mátti maður bíða í heil fimm ár!

Sennilega eru orður, titlar og verðlaun einungis eftirsókn eftir vindi.  Skýrt dæmi eru Oskarsverðlaunin, en ótrúlega margar lélegar myndir hafa fengið þau eða verið tilnefndar, og er meira að segja íslenskt dæmi um það.  Þessi verðlaun snúast eingöngu um peninga.  Nýlegt dæmi um fáránleikan er að leikkonan Laura Dern, sem lék frábærlega í myndinni Inland Empire eftir David Lynch, var ekki einu sinni tilnefnd þótt Lynch hafi að mér skilst, staðið með belju í bandi á fjölförnum stað til að vekja athygli á leikkonunni.  David Lynch hefur alltaf verið sérstakur.

Að lokum legg ég til að Bláskógabyggð, sem hefur þá stefnu að eyðileggja Þingvallavatn svo að þeir geti selt fleiri lóðir undir sumarbústaði, verði lögð í eyði.

 

 


Játningar Viðars J. - framhald.

Hef ekki ennþá ákveðið hvort ég játi eitthvað á mig í þessu bloggi.  En ég ætla að reyna að endursegja dæmið úr Herzog-myndinni The Wild Blue Yonder, sem maðurinn sem sagðist vera frá annari vetrarbraut, tók til að varpa ljósi á stöðu okkar jarðarbúa þegar við hefðum lokið við að drepa jörðina.

Árið 1977 héldu Voyager-geimförin tvö af stað og eru nú að komast út úr sólkerfinu.  Árið 1989 fór Galileo-farið að kanna sólkerfið og engir byggilegir staðir sáust.  Næsta stjarna við okkur, Alfa Centuri þar sem hitinn er 2 milljónir gráða og gæti verið óþægilegur, er í 4,5 ljósára fjarlægð.  Sé miðað við hefðbundið eldflaugaeldsneyti þyrfti, til að ná 30% af ljóshraðanum, ekki bara alla bensíntanka á jörðinni eða einn á stærð við Klettafjöllin, heldur allan massa í geimnum sem sjá má með berum augum, þ.e. jörðina, sólina, sólkerfið, Vetrarbrautina, allar stjörnur í nálægum vetrarbrautum (efni=orka lærði maður í máladeild, en nú er það víst ekki svona einfalt). 

Og hversu hratt höfum við komist?  Voyager hafði náð 88,000 km á klst árið 2005.  Ef mannað geimfar sem fer með þeim hraða hefði lagt af stað fyrir 20,000 árum til Alfa Centuri, hefði það í dag aðeins lokið 15% leiðarinnar.  Í geimfarinu hefðu lifað 500 kynslóðir með úrkynjun, byltingum og morðum og enginn veit lengur til hvers var lagt af stað eða hvaðan.  Fjarlægðin til staðar sem gæti verið byggilegur er ekki 4,5 ljósár, líklegra að hún sé 200,000 ljósár! 

Það virðist ekki vera nein töfralausn önnur en að bjarga jörðinni.  Ef við ætlum að fara eitthvað verðum við að hugsa okkur þangað.  Það þarf að fá sem mest af afburðagreindu fólki inn á þetta svið.  Ég játa að ég botna ekkert í þessu en hef áhuga og finnst vanta umfjöllun og námskeið fyrir þá sem ekkert skilja.  Fólki finnst e.t.v. óþægilegt að hugsa um þessar risastærðir allar, svipað og við óttumst dauðann og svart tómið, en við fundum nú upp trúarbrögðin til að reyna að redda því.

Er nokkuð meira spennandi en geimurinn?  Kannski börnin okkar, gul rós eða pönnukaka með rjóma, en þá er það líka upp talið.

Að lokum legg ég til, að Bláskógabyggð sem allt vill gera til að eyða Þingvallavatni, verði lögð í eyði.

 

Þessi #$#$%$# Þingvallanefnd þvær hendur sínar.

Nú hefur Þingvallanefnd, sem í eru 7 litlir dvergar af Alþingi, sannfært sjálfa sig um að hún hafi ekki umboð til að koma í veg fyrir eyðileggingu Þingvallavatns með lagningu Gjábakkavegar.  Maður trúir varla sínum eigin augum þegar maður les um þetta.  Dvergarnir 7 vilja greinilega hafa það náðugt, þiggja bitlinga og telja klósettin á Hótel Valhöll.  Þeir eru sjálfum sér til skammar og háðungar, samt er búið á kjósa þetta lið til að gæta hagsmuna almennings.

Að lokum legg ég til, að Bláskógabyggð, sem vill allt gera til að spilla Þingvallavatni, verði lögð í eyði.


Játningar Viðars J.

Hef verið með umhverfismál á heilanum, m.a. verndun Þingvallavatns og svo Chernobyl.  Þá var ég svo óheppinn að fara að líta í eigin barm:  Flokka ekki sorp, skola ekki fernur, fer ekki með blöðin í gám, fer ekki með plastflöskur í Sorpu, er ekki með safnhaug úti á svölum, læt bílinn ganga að óþörfu, ferðast ekki með Strætó, eyði allt of miklu vatni, læt loga á ollum ljósum og svo er örugglega heilmargt sem ég veit ekki um en ætti að vera að gera.  Ég geri mér þó ljóst að hlýnun jarðar og að ekki sjáist til sólar í mörgum kínverskum borgum, er ekki bara mér að kenna.  Ég ætla þó að byrja nýtt líf á morgun.

Ég reyndi að dreifa huganum og horfa á mynd eftir hinn ágæta leikstjóra Werner Herzog, sem heitir The Wild Blue Yonder frá 2005.  Mér fannst þetta vera vísindaskáldsaga sögð sem heimildarmynd.  Fyrsti hlutinn heitir:  Sálumessa fyrir deyjandi plánetu.  Ég var aftur lentur í því sama.

Hinn mikli hugsuður, Stephen Hawking sem er algjörlega lamaður, sagði eftir að hafa fengið að vera í þyngdarleysi, að framtíð mannsins væri úti í geimnum.  Var þetta raunsæi eða svartsýni, eða raunsæi og svartsýni?  Sögumaðurinn í hinni frumlegu og fallegu mynd Herzogs kemur með áhrifaríkt dæmi um hversu ólíkleg framtíð mannsins sé í geimnum.  Nú er nóg komið, framhald í næsta bloggi.


Höfundur

Viðar Jónsson
Viðar Jónsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband