Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Viðbragðsflýtir

Ekki sérlega liðugt orð.  En snarræði gengur ekki.  Að vera snöggur nær því, en sneggja hefur ekki átt upp á pallborðið.  Ég fór að spekúlera í því í gærkvöldi þegar ég var að reyna að forðast að horfa á mynd með hinum glataða leikara Jackie Chan, án þess að slökkva á sjónvarpinu.  Ég held, að hafa kveikt á sjónvarpinu veiti mér öryggiskennd, að ég sé í sama heimi og svona flestir. 

En Chan er viðbragðsfljótur.  Kvikmyndastjörnur geta nefnilega verið mjög snöggar og m.a. orðið frægar fyrir það.  Tökum Bruce Lee, sem varð cölt-eitthvað aðallega af því að hann drapst á toppnum, en hann kenndi okkur vesturlandabúum að brjóta allt og bramla með berum höndum, þ.e. án þess að nota verkfæri.  Ekki fannst öllum það vera framfarir, en hann var flottur og snöggur.  

Ekki má gleyma tveimur meisturum sem liðleikinn setti svip á, þá Buster Keaton, manninum með steinandlitið og Charlie Chaplin, flakkaranum fima.  En voru þetta ekki kvik- eða hreyfimyndir og segir þetta sig ekki sjálft?  Liggur í hlutarins eðli.  Endalaust blaður um....

 


Mænuskaðinn

Mikið dáist ég að ofurhuganum Auði Guðjónsdóttur hjúkrunarfræðingi, sem leggur allt undir til að auka batalíkur þeirra sem orðið hafa fyrir mænuskaða.  Nú síðast hafði hún forgöngu, ásamt dóttur sinni, um að koma á fót Mænuskaðastofnun.

Skyldi Auður hafa fengið medalíu hjá forsetanum? Vill eflaust frekar pening í baráttuna.  Það situr enn í mér, að maður sem vill láta gott af sér leiða og hefur gefið blóð 150 sinnum, féll ekki í kramið hjá sérfræðingum forsetans.  En t.d. utanríkisþjónustan virðist geta gengið í medalíurnar eins og hana lystir.  En auðvitað finnst mörgum það háðung að fá medalíu.

Mér skilst að nóbelsverðlaunin í læknisfræði hafa verið veitt fyrir stofnfrumurannsóknir.  Ég ímynda mér að þar gæti falist hugsanleg lækning á mænuskaða, en án þess þó að hafa nokkuð vit á því. 

Einn verðlaunahafanna benti á það á BBC í kvöld að hin viðkvæmu siðfræðilegu deiluefni vegna notkunar á stofnfrumum úr fóstrum gætu brátt verið úr sögunni, því byrjað væri að nota frumur úr fullorðnum einstaklingum og nefndi hann Japan og Boston.  Þetta ætti að hraða rannsóknum og framförum og glæða vonir.

Ekki einn af spámönnunum.

Merkileg þessi árátta að vera alltaf eitthvað að pæla í framtíðinni.  Þrátt fyrir að það sé margbúið að vara mann við þessu og að þetta geti alveg eins gert illt verra.  Þetta gerir ekkert gagn því að framtíðin er ekki komin, eða þá að þetta er allt hvort eð er fyrirfram ákveðið, og jafnvel þeir sem eru svo lánsamir að trúa blekkingu trúarbragðanna og vita hvað koma skal, hafa samt áhyggjur af framtíðinni.  Þó eru prestarnir stöðugt að lækka hitann í helvíti. 

Nú, ég verð að biðjast velvirðingar, því að ég fór strax út fyrir efnið.  Mér fannst aldrei vera heil brú í því að selja ekki bjór ef á annað borð átti að selja áfengi.  Ég leyfi mér að benda á snilldarlega lýsingu Halldórs Laxness á Íslendingum og bjórnum í hinni skemmtilegu sögu Guðsgjafaþulu.

Ég var þess fullviss þegar bjórinn var leyfður að heildarneyslan myndi ekki aukast að neinu ráði, en eins og allir vita hefur hún aukist mikið, hver svo sem ástæðan er.  Þetta hefur einnig átt sér stað í löndum sem við berum okkur saman við.  Kallar líf nútímamannsins á aukna vímuefnaneyslu?  Hver veit.  En ég rakst á tölfræði sem kom mér á óvart.  Áfengisneysla í vínmenningarlöndunum Spáni, Frakklandi og Ítalíu hefur minnkað umtalsvert.  Og hvernig stendur á því? 

Í fyrrnefndri sögu er reynt að útskýra hvaða augum fólk í öðrum löndum lítur á bjór, þetta sé einfaldlega fæðutegund, hluti af mataræðinu, eins og t.d. rúgbrauð.  Það reynist mörgum erfitt að minnka vímuefnaneyslu þegar hún er einu sinni komin úr böndunum.  En ef í þessum þremur löndum er litið á áfengi sem matvöru, er kannski ekki eins erfitt að minnka neysluna t.d. úr fjórum rúgbrauðssneiðum í tvær.  Þetta er samt ansi snúið og ég ætla ekki að spá meira í þetta. 

 


Vælið yfir Istorrent

Einhver ungur maður, sem heldur að hann sé þungavigtar-lögfræðingur, ætlar að breyta heiminum með því að setja lögbann á vefsíðuna Istorrent fyrir hönd höfunda.  Súpermann.  Ég held að hægt hafi verið að semja, a.m.k. hvað varðar niðurhal á íslensku efni.  Nú þegar eru komnar 3 nýjar síður sambærilegar við Istorrent.  Það er erfitt að standa á móti straumnum.

Á hverjum tíma eru hundruðir milljóna að hlaða niður efni af netinu og torrentarnir skipta hundruðum ef ekki þúsundum.  Dýrustu nettengingum hjá Símanum, Vodafone eða Hive fylgir ótakmarkað niðurhal, en það er lítið gagn í því vegna þess að hraðinn er svo lítill að það nenna fáir að standa í einhverju miklu niðurhali frá útlöndum.  Fyrirtækin nota síur til að draga úr hraðanum, en viðurkenna það auðvitað ekki

Þetta er ástæðan fyrir því að 26 þúsund manns eru í Istorrent.  Þar er um að ræða innlent niðurhal sem er ótakmarkað og hraðinn getur verið 50-60 sinnum meiri þegar best lætur.  Það getur tekið á annan sólarhring að hala niður bíómynd, en kannski 50 mínútur á Istorrent, hvort sem það er löglegt eða ólöglegt.  Vilji fólk ná í efni frá útlöndum mætti benda á:

Mininova.org - með ca. 190.000 torrenta.  The Pirate Bay - með yfir 600.000 torrenta.   Isohunt.com - með yfir 450.000 torrenta.  Þá er rétt að nefna Torrentscan.com, sem er leitarvél sem leitar í öðrum leitarvélum. 

Ungi maðurinn, sem virðist ekki ganga heill til skógar, lét í ljós löngun til að hringja heim til foreldra allra í Istorrent og láta vita að börnin væru að gera ljótt.  26.000 símtöl á kosnað höfunda.  Hann talar um sjóræningja og þjófa.  Það er ekkert sem stöðvar tímann eða tæknina.  Flestir eru líklega búnir að gleyma kassettunum sem á stóð að menn væru glæpamenn ef þeir tækju upp tónlist á þær. Þá er ekkert minnst á þá skatta sem búið er að leggja á óátekna geisladiska handa aumingja höfundunum.

Enn skal bent á það, að hljómsveitin Radiohead hagnaðist meira á því að leyfa fólki á ráða hvort eða hvað það vildi borga fyrir nýju plötuna á netinu, en sjálfur Bruce Springsteen með því að vera á toppi bandaríska vinsældalistans.

Sjóræningjar og þjófar, jú,jú, þessi ungi maður ætti nú að reyna að fá hljómlistarmenn til að hætta að svíkja undan skatti, telja nú fram hverja krónu af nýárstónleikum, jólatónleikum, frostrósatónleikum, einhver var að tala um 120 milljóna veltu.  Svo er það náttúrulega plötusalan.  Það hefur oft verið gert grín að vinnukonuútsvörum sem þessir kallar eins og Bubbi hafa oft borgað.  Tannlæknarnir eru auðvitað hinir klassísku, svo nótulausu iðnaðarmennirnir, en svo koma hljómlistarmenn, vælandi yfir Istorrent.

 

 

 

 

 


Morgunblaðið farið að glitra

Undanfarnar helgar hafa birst í Morgunblaðinu greinar um umhverfismál, en í þeim er lögð áhersla á hinar válegu loftslagsbreytingar og hvernig meðaljóninn getur lagt sitt af mörkum til þess að hindra þær.  Þetta eru vandaðar greinar og mikill fengur að þeim.  Og nýlega stóð á forsíðunni: ,,ómetanleg náttúruperla" með heimsstyrjaldarletri.

Eins og ég skil það, verður að lýsa á það sem á að glitra, en ég á ekki við að loksins hafi Morgunblaðið ,,séð ljósið", það hefur ekki staðið sig verr en aðrir fjölmiðlar, en vandinn er að við hefðum öll átt að standa okkur betur.  Það mætti fjalla meira um hættuna sem nú steðjar að Þingvallavatni.

Heyrði það á BBC að Frakkar ætli á Norðurheimsskautið með loftskipi næsta sumar til að mæla ísinn, sennilega til að geta verið í kyrrstöðu.  Frægt er þegar þýska loftskipið Hindenburg brann og féll til jarðar á 37 sek. árið 1937, í beinni úrvarpssendingu.  Hindenburg var álíka stórt og Titanic, teppalagt, kokkarnir heimsfrægir, postulín, silfur og kristall.

Það fylgdi sögunni að nú væri ísinn helmingi minni en hann var fyrir 30 árum og árið 2070 yrði hann horfinn!  Það er meira að segja fræðilegur möguleiki á því að ég muni lifa það, reyndar orðinn 119 ára og saddur lífdaga, eða kominn með rafmagnsheila, en samt...

Nú gerist allt með sívaxandi hraða og líkurnar minnka á því að við fáum stöðvað það.  Það þarf að hraða skrásetningu á öllu því sem við erum að missa út úr höndunum á okkur.  Ekki stóðum við okkur vel með geirfuglinn.

Getur þá ekkert glitrað í myrkri?  Í því sambandi rifjaðist upp fyrir mér myndin Blade Runner, vísindaklassík eftir Ridley Scott,  en í henni koma afar fullkomin vélmenni til jarðar, þar sem þau eru upprunnin, þau eru eftirlýst og nær óþekkjanleg frá mönnum.  Skapari þeirra veitti þeim takmarkaðan líftíma og þau neyna með öllum tiltækum ráðum að fá hann framlengdan, en það tekst ekki og minningar og reynsla glatast, lokaorðin voru: 

Ég hef séð ýmislegt sem þið mennirnir mynduð ekki trúa.  Árásarskip í ljósum logum út af öxlinni á Óríon.  Ég hef horft á C-geisla glitra í myrkrinu nærri Tannhauser-hliðinu.  Öll þessi andartök munu týnast í tímanum, líkt og tár í regni.  Kominn tími til að deyja.

Við höfum löngum haft samviskubit vegna styrjalda og manndrápa, þó ekki öll á sömu skoðun.  Nú er að verða til sameiginlegt samviskubit, alþjóðlegt samviskubit í umhverfismálum, umhverfisbit.

 

 

 

 

 


Í fréttum er þetta helst

Jæja, þá er byrjað að selja RÚV og á að gera það í pörtum.  Til dæmis verða veðurfréttir á 270 milljónir, hádegisfréttir á 1100 milljónir, en sé keypt hvorutveggja fylgir síðasta lag fyrir fréttir frítt með. 

Það veldur undarlegri tilfinningu að horfa á dæmda fjárglæframenn leggja undir sig samfélagið þó svo að þeir séu snyrtilegir til fara.  Kolkrabbinn var bara meinlaust gæludýr.  Í Rússlandi gilti það að hafa sérstaka starfsmenn til að sjá um múturnar.  Láta eyða heilu upplögunum af bókum ef þeir fá ekki að ráða því hvernig sagan átti sér stað.

Hvaða öryrkjar eru það eigilega sem kjósa Helga Hjörvar?  Er þetta fámenn klíka sem tryggir völdin eins og t.d. í mörgum verkalýðsfélögum?  Hann áformar róttækar breytingar í húsnæðismálum öryrkja án samvinnu við fólkið, en auðvitað geta breytingar verið góðar.  En fólkið er hrætt og það bíða 200 öryrkjar eftir húsnæði.   

Eru allir búnir að gleyma því þegar öryrki lést af brunasárum vegna þess að Helgi og framkvæmdastjóri vanræktu að láta takmarka hita á vatni.  Einhver hefði sagt af sér, menn eiga ekki að vera sjálfkjörnir þó að þeir sjái illa.

                                                                                                   


Í strætó

Ég hef verið að reyna að nota ekki bílinn í vinnuna, aka fram og aftur Miklubrautina endalaust.  Er oft búinn kl. 8 og þá er alvarleg umferðarsulta á þessari leið, sem reynir verulega á þolinmæðina, en í strætó er þetta eintóm slökun.

Í nótt sá ég lennonljósið í fyrsta sinn á stjörnubjartri nóttu og fannst það skrýtin tilfinning að það var eins og beint fyrir ofan mann.  Ég held að þetta sé gott í hófi.  Þegar ég kom svo út í morgun sá ég bjarta stjörnu á austurhimninum, en ég skammaðist mín fyrir að vita ekki hvað hún hét.  En ég sá hana af því að ég tók strætó.

Það var troðfullt í strætó, mest fallegt ungt námsfólk og svo heyrðist fólk tala útlensku.  Munur en að húka aleinn í blikkdós frá Kóreu í umferðarteppu.  Krakkarnir störðu flest á gemsana sína eða æpoda,  með heyrnartól og þumalputtarnir á fullu.  Nú eru flestir með tvær skólatöskur, eina fyrir fartölvuna, og þeir sem ætla líka í íþróttir, með þrjár.  Í gamla daga var manni hótað hryggskekkju ef taskan var ekki nákvæmlega rétt á bakinu. 

En sem sagt, mæli með strætó.

ATH. nýtt notendanafn: vidarjonsson.blogg.is


Vegagerðin á villigötum.

Eins og allir ættu að vita, mun fyrirhugaður Gjábakkavegur setja náttúruundrið Þingvallavatn í stórhættu að dómi vísustu manna.  Ómar Ragnarsson setti á dögunum fram tillögur um vegabætur sem gert gætu sama gagn og vegurinn.  Birtist þá ekki á síðum dagblaðanna enn einn útbrunninn fréttamaður, sem orðinn er upplýsingaeitthvað, og nú hjá Vegagerðinni.  Hann var auðvitað orðinn sérfræðingur í samgöngumálum eftir fyrsta daginn í vinnunni.  Hann mælti eindregið með veginum og að þeir ætli að fylgjast voða vel með vatninu.

Hvað er Vegagerðin að reka áróður í svona viðkvæmu og mikilvægu máli?  Hvað kemur Vegagerðinni þetta við?  Hún er bara verktaki sem á að gera eins og henni er sagt.  Held að þeir ættu að halda sig við að ræða Grímseyjarferjuna.

Júlíus Valsson minntist á það hér á blogginu nýlega að fundist hafi mikið kvikasilfur í Þingvallaurriðanum og sagði að hugsanlega væri þetta vegna afrennslis frá Nesjavallavirkjun í vatnið.  Ekki hafði maður hugmynd um það.  Verður ekki að rannsaka þetta?

Hvað segir urriðamaðurinn mikli, Össur, við þessu?  Hann er því miður í Þingvallanefnd, sem ekkert gagn gerir við að vernda Þingvelli, ekki eitt einasta orð um þessa háskalegu vegagerð inni í þjóðgarðinum.

ATH. NÝTT NOTENDANAFN:  vidarjonsson.blogg.is


Ómar bregst ekki.

Það gladdi mig að lesa frábæra grein Ómars Ragnarssonar um samgöngubætur sem gera sama gagn og Gjábakkavegur, en eins og kunnugt er á hann að liggja inni í þjóðgarðinum á Þingvöllum og að mati virtustu vísingamanna mun umferðin eitra Þingvallavatn. 

 Ég var farinn að halda að fólk ætlaði að láta Bláskógabyggð og frú Þórunni umhverfisráðherra malbika yfir sig þegjandi og hljóðalaust.  Það ætti að vega þungt sem helsti sérfræðingur í Íslandi segir.  En forustufólki í Bláskógabyggð er ekki við bjargandi og frú Þórunn er fallin á fyrsta prófinu. 

Samfylkingin er að reyna að klóra í bakkann og stofnaði félag til stuðnings frú Þórunni, Græna netið.  Jú,jú, það var ályktað um álverin vondu, en ekki um að frú Þórunn hefur leyft eitrun Þingvallavatns, sem er auðvitað stranglega bönnuð samkvæmt lögum.   

Eitt dæmi um hve Þingvallavatn er einstakt í veröldinni er hversu tært það er.  Það eru mest dæmi um vötn þar sem sést niður á u.þ.b. 5 m dýpi, en í Þingvallavatni má sjá niður á 25-30 m dýpi!  En hversu lengi verður það?  Frú Þórunn er búin að leyfa veginn og eitrið.  Þorir ekki að breyta samkvæmt sinni sannfæringu.  Þá verður hægt að breyta nafninu á félaginu í Græna slýið eða Græna slímið.   

Þessi svonefndu náttúruverndarsamtök verða að gera eitthvað raunhæft í þessu máli, þetta er ekki búið fyrr en það er búið.  Dómstólaleiðin er eftir.                                       


Lítil saga úr apótekinu.

Bý við þau leiðindi að þurfa að taka inn helling af lyfjum, en því miður ekkert af þeim lyfjum sem ég hefði ef til vill áhuga á að taka.  Það eru að sjálfsögðu margir í þessum sporum.  Þessu fylgir einhver kostnaður, en ég kvarta ekki yfir Tryggingastofnun því ég get unnið fulla vinnu, en ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta getur verið erfið barátta fyrir þá sem hafa lægstu launin.

Ég hef reynt að kíkja á verðkannanir í lyfjaheiminum og verslað í þeim apótekum sem eru lægst, t.d. í Lyfjaveri og Rimaapóteki.  Lyf, sem hafði kostað 3-4 þúsund, var allt í einu ókeypis í Lyfjaveri fyrir nokkrum misserum og hefur verið síðan.  Ég var ekkert óánægður með þetta og vildi ekkert vera að mótmæla við þessar sætu afgreiðslustúlkur.  Og líður nú tíminn.

Þá gerist það að heimilislæknirinn stingur upp á að senda lyfseðilinn í Lyfjaval og ég jánka því.  Jæja, þegar kemur að því að borga áttaði ég mig á því, þó ég kunni ekkert að fara með peninga, að þetta var meira en ég átti von á.  Ég þrasaði smá, reyndi þó að stilla mig, og í ljós kom að ég átti að borga yfir 4 þúsund fyrir fyrrnefnt lyf.  En allt í einu varð það ókeypis og því borið við að starfsstúlka hefði gert mistök.  Gott og vel, en stuttu síðar kvartaði kona í dagblaði yfir lyfjaokri í þessu sama Lyfjavali og þá var kennt um mistökum starfsstúlku.  Þægileg lausn. 

Flestir þekkja orðið viðskiptasiðferðið hjá lyfsölukeðjunum tveimur, og ekki af góðu.  Þær gera litlu apótekunum ,,tilboð sem ekki er hægt að hafna":  Þú selur okkur apótekið, ef ekki, þá opnum við apótek hér við hliðina og lækkum verðið þar til þú gefst upp, en þá færðu að sjálfsögðu minna fyrir það og verður að skrifa undir að þú minnist ekki á þetta við nokkurn mann.  Minna má á hetjulega baráttu konu sem rak apótek í Eyjum við risana, en treysti sér skiljanlega ekki til að eyða mörgum af þessum örfáu árum sem okkur er úthlutað, í svona mannskemmandi stapp.  Ungur maður flutti í heimahagana á Skaganum og opnaði apótek, en þá vildi svo til að verð snarlækkaði hjá hinum.  Hann kærði. 

Fólk verður að reyna að styðja litlu apótekin.  Þetta eru aðferðir sem mafían hefur lengi notað með góðum árangri og félagar í henni eru glæpamenn.  Ég bind vonir við nýja heilbrigðisráðherrann þangað til annað kemur í ljós.

Fyrir nokkrum dögum neyddist ég til að láta senda lyfseðil fyrir margnefnt lyf í Lyfju því að þar er opið að kvöldi til.  Ég veit ekki af hverju ég átti ekki von á góðu, en ókeypislyfið kostaði þar 2,900 kr.  Lyfjafræðingurinn sagði að það hefði aldrei verið ókeypis hjá þeim og ég benti á að það væri vegna þess að þau væru mestu okrararnir og gætu bara átt þetta lyf.  Ég var sæmilega kurteis og rólegur og held ég sé eitthvað að þroskast.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Viðar Jónsson
Viðar Jónsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband