6.4.2008 | 14:25
Skapillt og húmorslaust stórveldi
Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með ferðum kínverska ólympíueldsins um Lundúnaborg á BBC. Kínverjar hafa lagt til öryggisverði í ljósbláum íþróttagöllum sem mynda hlaupandi hring utan um kyndilberann, allt sýstemið hlaupandi. Minnir á öryggisverði bandaríkjaforseta hlaupa á eftir svartri limósínu hans. Hugmyndaríkur mótmælandi dulbjó sig sem lögga og mætti með slökkvitæki og sprautaði hvítu skýi á liðið og það varð engin smá panikk og munaði minnstu að kyndilberinn missti kyndilinn.
Segiði svo að það sé aldrei neitt fyndið í sjónvarpinu. Ég var ánægður með kyndilberann þegar hún sagðist vera ánægð með að hér gæti fólk tjáð skoðun sína og sagðist geta skilið að maðurinn með slökkvitækið teldi þetta rétta leið til að mótmæla hernámi Kínverja í Tíbet.
Sendiherra Kína í London verður örugglega kallaður heim á morgun og gerður að veðurathugunarmanni í Góbí-eyðimörkinni. Svo vantar eflaust fólk til að moka upp hina ótrúlegu fornmuni sem hafa verið að finnast á síðustu misserum. Í mannkynsögunni í gamla daga var fjallað um Kína OG Indland á einni blaðsíðu! Ætli það hafi eitthvað breyst?
Nú eru Kínverjarnir að reyna að hreinsa loftið í Peking og kenna fólki að bíða í biðröð. Þeir eru þrjóskir og virðast t.d. ekki ætla að hætta að gera tilkall til Taivan. Hvað segðum við ef Norðmenn gerðu tilkall til Íslands? Hver á að ákveða hvort eða hvað tíminn eigi að gilda?
Lifi Tíbet! Lifi Þingvallavatn! Niður með Þórunni! Lifi vatnið!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2008 | 22:55
Þórunn sekkur dýpra í mengunarfenið
Þórunni, sem er orðin umhverfisráðherra Sjálfstæðisflokksins, virðist algjörlega fyrirmunað að gera nokkuð sem kemur íslenskri náttúru vel. Er hún ekki að vinna gegn umhverfinu sem fulltrúi Reyknesinga? Álver í Helguvík hlýtur að renna ljúflega niður hjá kjósendunum.
Er ekki alveg fáránlegt að vona að hún lyfti litlafingri til að koma í veg fyrir eitrun Þingvallavatns. Hún hefur orðið sér til stórskammar hjá Heimsminjaskrá og svo er vísindasamfélagið að draga hana fyrir dómstóla fyrir að leyfa eyðingu náttúruundurs sem er friðað.
Eingöngu til þess að þessir fábjánar í Bláskógabyggð geti selt fleiri sumarbústaði. Þeir segja stoltir að bústaðirnir séu orðnir 2200. Heldur einhver t.d. að fleiri flytji að Laugarvatni þó hægt verði að komast þangað á 90 km hraða í stað 80? Allur þrýstingurinn á að gefa skít í Þingvallavatn kemur frá vonlausum forsvarsmönnum Bláskógabyggðar og þingmönnum þeirra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2008 | 16:54
Þingvellir af Heimsminjaskrá?
Ég sagði frá því í síðasta bloggi að ég hefði gerst svo djarfur að senda tölvupóst til Dr.Mechtild Rössler, yfirmanns hjá Heimsminjaskrá UNESCO.
Ég sagði frá viðvörunum vísindamanna vegna breytinga á Gjábakkavegi og einnig frá nýlegum upplýsingum um alvarlega kvikasilfurseitrun í urriðanum, að öllum líkindum frá Nesjavallavirkjun.
Ég sagði einnig frá viðbrögðum yfirvalda sem ber skylda til að vernda þetta friðaða svæði: Umhverfisráðherra segir ekki ég, Þingvallanefnd segir ekki ég, Nesjavallavirkjun segir ekki ég, Bláskógabyggð segir ekki ég, o.s.frv.
Ég fékk strax svar frá Heimsminjaskrá þar sem þeir segjast fylgjast vel með þessu máli. Það var gott að heyra það. Ég lét svarið berast til 24stunda, en þar hefur undanfarið verið vönduð umfjöllun um mengun í Þingvallavatni.
Nú hafa 24stundir rætt við Dr.Rössler og fréttin er komin á forsíðuna á blaðinu í dag! Húrra fyrir 24stundum!! En við verðum að fara að láta heyrast okkar rödd.
Og auðvitað: Tíbet, Tíbet!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2008 | 11:44
Það er fylgst með okkur
Það eru allt of fáir sem vita af yfirvofandi eitrun Þingvallavatns með lagningu hraðbrautar við vatnið. Þetta er rekið áfram af Bláskógabyggð og Vegagerðinni gegn viðvörunum vísindamanna. Þingvallanefnd segist vera stikkfrí og umhverfisráðherra segist vera stikkfrí. Nýlega komu upp á yfirborðið upplýsingar um svo mikla kvikasilfursmengun í þingvallaurriðanum að varasamt er að borða hann. Þetta hefur legið fyrir hjá Umhverfisstofnun frá 2003. Gott dæmi um gagnslausa stofnun. Kvikasilfrið berst líklega með leyniafrennsli frá Nesjavallavirkjun, en þeir gera eins lítið úr málinu og hægt er og nenna ekkert að rannsaka þetta og segja að þetta muni lagast!
Þingvallasvæðið er samkvæmt lögum friðað, en þeir sem eiga að tryggja að svo verði og að við skilum óspilltri náttúru til barnanna okkar, hafa brugðist skyldum sínum. Hvar annars staðar í heiminum gæti það gerst að vísindamenn sjái sig neydda til að draga umhverfisráðherrann, frú Þórunni, fyrir dómstóla til að reyna að bjarga náttúruundri sem þegar er friðað? Er nokkur leið að skilja þetta? Ráðherrann er í þeirri öfundsverðu aðstöðu að geta gert eitthvað í málinu.
Þingvellir eru á Heimsminjaskrá ásamt um 800 merkra staða á jörðinni. Friðað og á Heimsminjaskrá, maður hefði haldið að það hefði eitthvað að segja í náttúruvernd. Ég hef nokkrum sinnum bloggað um þetta mál og finnst að því miður gerist ekkert jákvætt. Til að gera eitthvað þá skrifaði ég yfirmanni Heimsminjaskrár og greindi í örstuttu máli frá vegalagningunni og kvikasilfrinu og aðgerðaleysi umhverfisráðherra. Ég tók skýrt fram að ég væri ekki sérfræðingur í neinu og ætlaðist ekki til að fá svar. Mér finndist bara Þingvellir vera yndislegur staður. En viti menn, eftir nokkra klukkutíma kemur þetta svar:
Dear Mr Jonsson,
Thank you for your inquiry. Please be assured that we are following this question of the road construction very closely with our advisory bodies ICOMOS and IUCN and the national authorities.
Thank you for your support for World Heritage conservation,
Best wishes,
M. Rossler
Dr. Mechtild Rössler
Chief, Europe & North America
UNESCO World Heritage Centre
4.3.2008 | 02:44
Hvaða Arnaldur?
Niðurstaða könnunnar Fréttablaðsins að einhver Arnaldur sé besti rithöfundurinn er ömurlegur vitnisburður um hina miklu bókaþjóð. Hann mun vera prýðilegur iðnaðarmaður en... Var fólk spurt hvort það hefði heyrt annan rithöfund nefndan? Var það spurt hvort það kynni að lesa? Var fólk ef til vill að reyna að vera fyndið?
Mikið af bókum endar í stöflum í Góða hirðinum, þeim ágæta stað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.2.2008 | 18:12
Margir hafa komið að máli við mig.
Nei, er ekki að fara í framboð, með allt of skuggalega fortíð. Fólki virðist vanta að vita hvað það á halda í lífsins ólgusjó.
.Eg var ánægður er Björk tók ljósmyndarann í gegn um daginn, ég hefði sent vöðvabúnt heim til hans um nóttina. Þessir myndatökumenn eru snýkjudýr og blóðsugur sem á að fara eins illa með og hægt er.
Ég held bara að ég mæli með Villa/Ólafi. Þarf eitthvað að röksyðja það? Man enginn lengur hve ömurlegt þetta var orðið hjá R-listanum eftir Ingibjörg stakk af? Menn geta t.d. skoðað framkvæmdir við Hringbrautina sem gera ekkert gagn.
Það hefur verið ljóst í nokkurn tíma að kvikasilfurmengun í urriðanum í Þingvallavatni er orðin slík að varað er við neyslu hans. Þetta kemur auðvitað frá Nesjavallavirkjun. Hafa þeir leyfi til að dæla eitri í dýrmætasta vatn Íslands. Það fást ekki peningar til rannsókna! Orkubatteríið sem er sökudólgurinn er ekkert æst í að borga. Svo á einnig að eitra vatnið með því að leggja veg of nálægt Þingvallavatni. Þingvellir og umhverfi þess er friðað og það er einnig á Heimsminjaskrá. Nú er fólk farið að skrifa til þessarar stofnunar og benda á kvikasilfrið og nitrið frá veginum og að frú Þórunn umhverfisstýra sé fullkomlega lömuð í málinu. Hvað með Græna netið? Er það til styðja tillögur um að gera ekki neitt.
Vonandi taka Geir og Ingibjörg fram fyrir hendur frú Þórunnar.
Dægurmál | Breytt 25.2.2008 kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2008 | 00:35
,,Sólskinið titrar, hægt um hamra og gjár,
ÞINGVELLIR eftir Jakob J. Smára.
Sólskinið titrar, hægt um hamra og gjár,
En handan vatnsins sveipast fjöllin móðu.
Himinninn breiðir faðm jafn fagurblár sem fyrst,
er menn um þessa velli tróðu. /
Og hingað mændu eitt sinn allra þrár.
Ótti og von á þessum steinum glóðu.
Og þetta berg var eins og ólgusjár,-
þar sem allir straumar landsins saman flóðu. /
Minning um grimmd og göfgi, þrek og sár
geymast hér, þar sem heilög véin stóðu,-
höfðingjans stolt og tötraþrælsins tár,
sem tími og dauði í sama köstinn hlóðu. /
Nú heyri ég minnar þjóðar þúsund ár
sem þyt í laufi á sumarkvöldi hljóðu.
Það er margt fallega sagt hér um söguna og náttúrufegurð og við verðum að tryggja að ungt fólk fái að upplifa hana. En nú ætlar umhverfisráðherra að leyfa að allt fyllist af reykspúandi trukkum, rútum og einkabílum sem munu eitra Þingvallavatn og eyðileggja náttúruundur sem er einstakt í veröldinni. Til hvers tekur maður að sér embætti umhverfisráðherra?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2008 | 02:47
Pétur kærir frú Þórunni
Mikið erum við lánsöm að eiga vísindamann eins og Pétur M.Jónsson vatnalíffræðing, sem einnig er hugsjóna-og baráttumaður. Og mikið erum við ólánsöm að hafa frú Þórunni, þennan glataða umhverfisráðherra. Hún er búin að fá eitt tækifæri til að forða því að Gjábakkavegur verði lagður við Þingvallavatn. Þá hafði Umhverfisstofnun sagt að það væri: ,,...ótvírætt hvernig niturmengun virkar og ljóst að aukning í magni köfnunarefnis (niturs) getur raskað jafnvægi í lífríki Þingvallavatns."
Það er alveg fáránlegt að árið 2008 þurfi að standa í stappi við umhverfisráðherra sem ekki vill fara að ráðum fremstu vísindamanna og ekki fara að lögum um Þingvelli! Hér verða einhverjir með viti að taka í taumana áður en það verður um seinan. Sérfræðingar í samgöngumálum hafa bent á aðrar lausnir.
Svo þykist vegamálastjóri (sem er að hætta, guði sé lof) ekkert hafa vitað af umsögn Umhverfisstofnunar (2006) og segir um endurskoðun á veglagningunni: ,,Þessu ferli er lokið af okkar hálfu og allra aðila sem um það munu fjalla." Það er naumast að Vegagerðin heldur að hún sé valdamikil, farin að reka áróður með eða á móti hinum ýmsu framkvæmdum. Komnir með fjölmiðlafulltrúa og allt hvað eina. Vegagerðin er bara verktaki sem á að gera það sem henni er sagt. Það borgar sig ekki fyrir hana að fara að hugsa of mikið, sbr. Grímseyjarferjuna.
En þori frú Þórunn engu verður það henni til háðungar. Samfylkingin stofnaði nýlega umhverfissellu, Græna netið, þar ætti að vera einhver sem gæti bent frú Þórunni á villu síns vegar. Eða þá að halda björgunarnetinu strekktu þegar ráðherrann dettur úr stólnum, sem vonandi verður fyrr en seinna.
Dægurmál | Breytt 7.3.2008 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2007 | 00:58
Mikið skáld Gyrðir
Nú þegar bókaflóðið er að fjara út ganga menn fjörur og huga að reka. Auðvitað er mest af Arnaldi, 30 þús. eintök! Hann á allt gott skilið fyrir að skrifa íslenskar glæpasögur sem ekki eru hlægilegar eða fáránlegar. Allir skrifa nú glæpasögur, formúlubókmenntir sem leita fyrirmynda hjá útlendum höfundum.
Ég las ekki alls fyrir löngu viðtal við skáldið Gyrði Elíasson, þar sem m.a. kom fram að sala á síðustu bókum Gyrðis hafi verið ótrúlega lítil. Miðað við það sem var, eða þá aðra höfunda? Mér hefur fundist að bókmenntafræðingar væru flestir sammála um að Gyrðir væri eitt albesta skáld Íslendinga. Bestur? Það er sennilega rétt að gera ráð fyrir ólíkum smekk, en svo gæti hann stafað af lestrarleysi.
Við stöndum okkur ömurlega sem ,,bókaþjóð". Við styðjum ekki eða kaupum ekki það sem mest gildi hefur. Ég hef ekki frumlegar skoðanir á neinu, en þær bækur sem veitt hafa mér mesta ánægju eru bækur Halldórs Laxness, Þórbergs Þórðarsonar, Málfríðar Einarsdóttur, Tímaþjófurinn og svo bækur Gyrðis.
Allar þessar glæpasögur eru einnota bókmenntir og hrúgast upp á heimilum fólks. Þetta minnir á jólagjafabækurnar eftir Alister MacLean sem gefnar voru þeim sem alls ekki vildu lesa neitt. Eftir svona 10 ár verða fullir gámar af Arnaldi fyrir utan Góða hirðinn. Allt orðið fullt inni.
Er ekki orðið tímabært að umhverfisráðuneytið setji reglugerð um hve stórt upplag megi prenta af einstökum bókum. Þá á ég við, að draga verður úr eyðingu regnskóganna, o.s.frv.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.12.2007 | 00:29
Flytur Björgólfur áramótaávarpið?
Véfréttinni í Delfí hefur verið mikið niðri fyrir síðustu daga. Hofgyðjur hafa túlkað þetta svo að yfirvofandi sé að bissnessmaður í teinóttu að nafni Björgólfur ætli að fá eitthvað fyrir snúð sinn hjá Páli útvarpsstjóra, og flytja ávarpið á gamlárskvöld.
Þessi teinótti keypti vænan bita af RÚV af Páli nýlega, mun hann hafa keypt m.a. hádegis-og kvöldfréttir, svo og morgunleikfimina. Markmiðið með flutningnum mun vera, samkvæmt véfréttinni í Delfí, að reyna að öðlast virðingu.
Þá segir véfréttin að verið sé að leggja á ráðin um sölu dómstólanna, m.a. til að auðvelda endurupptöku mála og dóma sem lengi hafa verið meira og minna tóm vitleysa.
En verða bara ekki allir guðslifandifegnir? Þessi ávörp hafa verið það alleiðinlegasta sem sögur fara af og fær fólk hroll þegar á þau er minnst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)