Leita í fréttum mbl.is

Hlynur á 24stundum

Hinn ágæti blaðamaður á 24stundum, Hlynur O. Stefánsson, hefur verið óþreytandi í því að segja frá þeirri miklu hættu, sem flestir sem vit hafa á, telja að steðji að Þingvallavatni og náttúru þess.  Hættan er annars vegar áform Vegagerðarinnar um að gera Gjábakkaveg að mengandi hraðbraut of nærri vatninu og hins vegar kvikasilfurseitrun sem margir telja að komi mest frá Nesjavallavirkjun.  Ekki eru allir sammála um hve mikla áhættu megi taka með þessum framkvæmdum, sumir hafa að mínum dómi ekki séð ljósið, en Hlynur hefur gætt þess að kynna ólík sjónarmið.

Það voru ánægjulegar fréttir í 24stundum í dag að loks hafi fengist peningar til að rannsaka kvikasilfrið.  Orkuveitan (syndaselurinn?) styrkir rannsóknir tveggja aðila.  Það var gott að sjá niðurstöðu úr könnun Landverndar á vilja almennings á breytingum á Gjábakkavegi, þar sem flestir vildu gera minniháttar breytingar.  Það eru smákaflar með bundnu slitlagi á veginum og það hlýtur að vera hægt að binda hann slitlagi án þess að byggja hann mikið upp.  Það er t.d hægt að takmarka þyngd bíla og gera þetta þægilegt fyrir fólksbíla.  En ég nú veit ekkert um vegagerð.


Páfinn tekur Jón Gnarr í tölu dýrlinga!

Það kom nokkuð á óvart þegar Vatikanið tilkynnti þessa ákvörðun í dag.  Þó höfðu verið raddir um að eitthvað slíkt væri í vændum.

Jón Gnarr er ómetanlegur.  Hann er snilldarhúmoristi og frábær leikari og hefur haldið lífinu í þjóðarsálinni á þessum hundleiðinlegu krepputímum.  Þetta sá páfinn auðvitað þó að þetta hafi farið öfugt ofan í villuráfandi sauði hans á Íslandi.

Án þess að ég vilji hella olíu á elda þeirra trúarbragðastríða sem nú eru í gangi (eins og alltaf), vil ég minna á að trúarbrögð eru blekkingar, kristni sem og islam, en það getur verið þægilegra að lifa í blekkingu.  Dauðinn er ekkert spennandi og paradís hljómar ekkert illa.  En er það eðlilegt að ríkisvaldið standi fyrir slíku, en auðvitað getur hver maður trúað því sem hann vill.

En af hverju þarf allt sem kemur frá biskupnum og kirkjunni og sértrúarsöfnuðum að vera svona leiðinlegt og húmorslaust?  Eins og að trúarbrögð séu eitthvað grafalvarlegt mál?  Jón Gnarr heldur í manni lífinu - dýrmætur dýrlingur.

Ef ég kynni að teikna myndi ég teikna Múhameð.


Hvar varst þú þegar...

Ég var að borða nautasteik á veitingahúsi og var farinn að sjá fyrir mér rústirnar, en þá var það búið.  Kokkarnir komu hlaupandi út úr eldhúsinu.  Allar myndir skakkar þegar ég kom heim.  En þeim fækkar sem geta svarað því hvar þeir voru þegar Kennedy var skotinn, þeirri frægu spurningu.

Þá var ég í þrjúbíó í Gamlabíói, á sunnudegi að sjálfsögðu.  Á leið niður Bankastræti eftir bíó sá ég í útstillingarglugga dagblaðsins Tímans fréttir af morðinu.  Það hafði áhrif. 

Hef undanfarin misseri verið að punkta niður eina og eina æskuminningu (smá sagnfræðingaleikur) og rekið mig á að enginn fótur er fyrir nokkrum lykilminningum.  Ekki þægilegt þegar svoleiðis skjálftar brjóta stór stykki úr fortíðnni , en hún er nú það eina sem við eigum.

Oft hefur verið sagt, að þeir sem séu síljúgandi fari fljótt að trúa lyginni.  Hið sama gildir þegar fólk lýgur að sjálfu sér.  Kannski að þá verði til ígræddar minningar.  Líklega eru þær oftar góðar heldur en hitt, hvers vegna að vera að hafa fyrir því að græða í slæmar minningar, nóg er af þeim samt.

Það er ekki oft sem ég heyri ekta kjaftasögur og enn sjaldgæfara að ég hafi þær eftir.  Ef til vill lýsir hún einhverju í huga almennings þegar kreppan vofir yfir.  Hún er ótrúleg...en : Maður sem fæddist með silfurskeið í munninum og sýnt hefur af sér mikla græðgi á síðustu árum, tók mjólkurpeninga fjölskyldunnar, 47 milljarða, og ætlaði amk. að tvöfalda þá á hlutabréfamarkaðinum, á nú 1 milljarð eftir og situr inni á Kleppi og reytir hár sitt.


Vonbrigði með Dylan-hljómleikana

Fór að sjálfsögðu að sjá og heyra minn uppáhalds tónlistarmann (hver fann eiginlega upp þetta ömurlega orð ,,söngvaskáld"?). Ég var á sæmilegum stað og fannst bandið auðvitað hörkugott, mikið rokk og sándið fínt. Dylan spilaði bara á hljómborð, og náttúrulega á munnhörpu, en ég saknaði gítarsins ekkert þótt hann sé frábær gítarleikari eftir 50 ára æfingar.  Trommarinn alveg rosalegur. Þeir hefðu geta verið tveir einir, hann og Dylan.

En sándið á söngnum var alveg glatað. Þetta var bara urg og vonlaust að heyra texta þótt maður þekkti vel lögin. Þetta lagaðist aðeins þegar þeir drógu úr rokkinu og tóku nokkur róleg lög af nýjustu plötunum. En þetta hlýtur að hafa átt að vera svona, því ekki vantaði græurnar og 30 manna starfslið, að því er sagt var. Mér fannst þetta synd því Dylan er mjög góður söngvari.

Ég fór um daginn að hlusta á Rufus Wainwright, þann fína söngvara, hann var einn í Háskólabíói. Þar var ótrúlega góður hljómur, maður heyrði alveg ofan í lungu á honum. En ef til vill er þetta ekki sambærilegt.

En auðvitað gaman að sjá verðandi nóbelsverðlaunahafa, meistara Bob Dylan.

 


Hryllingur í Hafnarfirði

Hvað segir fólk um hryllingsmyndina á forsíðu Moggans frá Hafnarfirði, þar sem búið er að byggja risagáma og eyðileggja ánægju fólks með að búa í fallegasta hluta bæjarins. Þarna er bæjarstjórnin í hernaði gegn íbúunum. Er ekki einhver sem á dínamít?

Hef alltaf talið það vera sjálfsskaparvíti að búa í dreifbýlinu, en nú get ég ekki annað en kennt í brjósti um Hafnfirðinga. Það er ekki nokkur skynsamleg hugsun í þessu. Það hefði ekki verið verra að byggja álver þarna.


Græna slímið

Samfylkingin hefur stofnað áfallahjálparhóp fyrir Þórunni umhverfisráðherra sem kallast Græna slímið, eða var það Græna netið? Markmiðið er að hugga Þórunni alltaf þegar hún segir já við öllum skemmdarverkum gegn íslenskri náttúru, gegn betri vitund verður maður að trúa.

Staksteinar eiga ekki nógu sterk orð til að dásama Jóhönnu Sigurðardóttur, og fyrir hvað? Fyrir að þora að fylgja sannfæringu sinni. Skrýtið að það skuli þykja undur og stórmerki að alþingismaður fylgi sannfæringu sinni eins og hann hefur heitið að gera.

Nú ætlar Græna slímið í rútu á Þingvöll á morgun að kynna sér Gjábakkaveg við Þingvallavatn. Hverju mun það breyta? Þórunn er þegar búin að segja já og bestu vatnalíffræðingar landsins, heimsþekktir vísindamenn, hafa séð sig tilneydda að stefna ráðherranum til að hindra eitrun Þingvallavatns sem er friðað!

Það er aldrei of oft farið til Þingvalla og þar opnast náttúran fyrir manni.  Hvernig verður það þegar vatnið er orðið grænt eins og vísindamenn segja hættu á? Í tærustu vötnum heims sést niður á 5 m dýpi, en niður á 25 m dýpi í Þingvallavatni. Eitt af því fjölmarga sem gerir vatnið að náttúruundri.

Það gott og blessað að fara í rútuferð en það verður einfaldlega að fara að ráðum vísindamanna og skila náttúrunni óspilltri til barnanna.

Hvort heldur fólk að þingmenn á Suðurlandi, t.d. Árni Johnsen, Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson, meti meira náttúruna eða atkvæðin?


Nú verður þú að kjósa náttúruna! Núna!

Á morgun, bara á morgun, verður hægt að tjá skoðun sína á yfirvofandi eitrun Þingvallavatns með lagningu Gjábakkavegar sem hraðbrautar við vatnið (allt friðað!).  Landvernd stendur fyrir þessari könnun og er m.a. hægt að segja skoðun sína í gegnum mbl.is og fá upplýsingar. 

Leið 1 er leið náttúrunnar.

Leið 2 er leið sumarbústaðasala í Bláskógabyggð og Vegagerðarinnar.

Leið 3, 4 og 5 eru skárri en leið 2.

 Við berum ábyrgð, tökum þátt og snúum upp á handlegginn á vinum og vandamönum og kjósum leið 1 á morgun.

Það er fleira náttúruvernd en endalaust blaður fram og aftur um einhverja losunarkvóta eins og umhverfisráðherra stendur í, en við Íslendingar erum peð í því dæmi og skiptir litlu hvað við gerum.

Gleðilegt sumar við Þingvallavatn.


Áhrif tímans

Hvernig er hægt að skrifa sögu heimspekinnar án þess að vera heimspekingur? Þarf þá ekki að liggja í einhverjum lexíkonum?  Rak augun í gamla umfjöllun á netinu um ofmetnustu Íslendinga, þar var Páll Skúlason lítt metinn en ,,kverúlant úr Keflavík" mikils metinn.  Ég held að skýringin sé afleiðingar af hringavitleysunni sem kölluð er/var nýaldarfræði. Sennilega nenna heimspekingar ekki að standa í karpi út af þessu.

Það er verið að auglýsa þetta sem eitthvað alveg skothelt fyrir ungt skólafólk.  Fyrrverandi rektor dásamar þetta, kannski lítið farið í heimspeki í sálfræðinni?  Svo segir Lafleur-útgáfan: ,,Eftir einn mesta hugsuð íslensku þjóðarinnar!" Hér hefur útgáfan algjörlega misst stjórn á sér, þó svo að höfundur, sem margt er til lista lagt, hafi verið í viðtali hjá Agli Helga. 

Eina kvikmyndin sem ég hef horft á oftar en 10 sinnum er Chinatown eftir Polanski. Þar segir leikstjórinn/leikarinn John Huston setningu sem mér finnst að eigi oft við:

,,Politicians, ugly buildings and whores all get respectable if they live long enough."

Ekki víst að þetta eigi við hér og til að koma í veg fyrir allan misskilning, þá hef ég ekkert vit á heimspeki og ætti fólk að varast að taka mark á þessu.

 

 


Nú er gaman hjá Birni Bjarnasyni

Loksins getur dómsmálaráðherra látið sérsveit eða óeirðalögreglu berja á mönnum og sprauta  einhverri ólyfjan m.a. á konur og börn og dregið þá handjárnaða inn í lögreglubíla.  Alveg eins og gert er í útlöndum og fólk sér í sjónvarpinu.  Egg en ekki grjót.  Fullkomnað þegar nasistaforingjar komu á vettvang. Nú getur Björn rökstutt stofnun íslensks hers. Þá verður ennþá meira gaman.


Dylan - næst nóbelsverðlaunin

Bob Dylan var að fá Pulitzer-verðlaun fyrir framlag sitt til menningarinnar. Dylan er stórskáld og síðustu 3 plötur hans eru meistaraverk.  Það verður upplifun að heyra hann og sjá í Grafarvoginum í næsta mánuði á hátindi ferilsins. Hann ætti að fá nóbelsverðlaunin frekar en einhverjir dularfullir skáldsögunördar sem fáir lesa, en Svíarnir snobba fyrir.

Hvað er svo að gerast hjá Vegagerðinni? Er þetta orðið einkafyrirtæki? Það eru margir reiðir vegna slyssins á Reykjanesbraut, sem Vegagerðin ber mikla ábyrgð á. Er fólk nokkuð búið að gleyma Grímseyjarferjunni?

 Svo er Vegagerðin að reka áróður fyrir hinum mjög svo umdeilda Gjábakkavegi. Er það hlutverk Vegagerðarinnar að reka áróður? Nú eru þeir búnir að fá þreyttan fréttamann sem upplýsingafulltrúa. Svo er einhver veghönnuður að mótmæla áliti færustu vísindamanna um væntanlega eitrun Þingvallavatns. Það þarf að endurskoða lög og reglur um Vegagerðina. En sem betur fer hefur yfirmaðurinn lofað að hætta.

Langar til að benda á að Björn Bjarnason og Össur Skarp. eru í Þingvallanefnd OG í Heimsminjaráði og þeir hafa EKKERT gert til að vernda náttúruna á Þingvöllum. Þetta eru bara bitlingaþegar sem bregðast skyldum sínum.

 


Næsta síða »

Höfundur

Viðar Jónsson
Viðar Jónsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband