Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Í strætó

Ég hef verið að reyna að nota ekki bílinn í vinnuna, aka fram og aftur Miklubrautina endalaust.  Er oft búinn kl. 8 og þá er alvarleg umferðarsulta á þessari leið, sem reynir verulega á þolinmæðina, en í strætó er þetta eintóm slökun.

Í nótt sá ég lennonljósið í fyrsta sinn á stjörnubjartri nóttu og fannst það skrýtin tilfinning að það var eins og beint fyrir ofan mann.  Ég held að þetta sé gott í hófi.  Þegar ég kom svo út í morgun sá ég bjarta stjörnu á austurhimninum, en ég skammaðist mín fyrir að vita ekki hvað hún hét.  En ég sá hana af því að ég tók strætó.

Það var troðfullt í strætó, mest fallegt ungt námsfólk og svo heyrðist fólk tala útlensku.  Munur en að húka aleinn í blikkdós frá Kóreu í umferðarteppu.  Krakkarnir störðu flest á gemsana sína eða æpoda,  með heyrnartól og þumalputtarnir á fullu.  Nú eru flestir með tvær skólatöskur, eina fyrir fartölvuna, og þeir sem ætla líka í íþróttir, með þrjár.  Í gamla daga var manni hótað hryggskekkju ef taskan var ekki nákvæmlega rétt á bakinu. 

En sem sagt, mæli með strætó.

ATH. nýtt notendanafn: vidarjonsson.blogg.is


Vegagerðin á villigötum.

Eins og allir ættu að vita, mun fyrirhugaður Gjábakkavegur setja náttúruundrið Þingvallavatn í stórhættu að dómi vísustu manna.  Ómar Ragnarsson setti á dögunum fram tillögur um vegabætur sem gert gætu sama gagn og vegurinn.  Birtist þá ekki á síðum dagblaðanna enn einn útbrunninn fréttamaður, sem orðinn er upplýsingaeitthvað, og nú hjá Vegagerðinni.  Hann var auðvitað orðinn sérfræðingur í samgöngumálum eftir fyrsta daginn í vinnunni.  Hann mælti eindregið með veginum og að þeir ætli að fylgjast voða vel með vatninu.

Hvað er Vegagerðin að reka áróður í svona viðkvæmu og mikilvægu máli?  Hvað kemur Vegagerðinni þetta við?  Hún er bara verktaki sem á að gera eins og henni er sagt.  Held að þeir ættu að halda sig við að ræða Grímseyjarferjuna.

Júlíus Valsson minntist á það hér á blogginu nýlega að fundist hafi mikið kvikasilfur í Þingvallaurriðanum og sagði að hugsanlega væri þetta vegna afrennslis frá Nesjavallavirkjun í vatnið.  Ekki hafði maður hugmynd um það.  Verður ekki að rannsaka þetta?

Hvað segir urriðamaðurinn mikli, Össur, við þessu?  Hann er því miður í Þingvallanefnd, sem ekkert gagn gerir við að vernda Þingvelli, ekki eitt einasta orð um þessa háskalegu vegagerð inni í þjóðgarðinum.

ATH. NÝTT NOTENDANAFN:  vidarjonsson.blogg.is


Ómar bregst ekki.

Það gladdi mig að lesa frábæra grein Ómars Ragnarssonar um samgöngubætur sem gera sama gagn og Gjábakkavegur, en eins og kunnugt er á hann að liggja inni í þjóðgarðinum á Þingvöllum og að mati virtustu vísingamanna mun umferðin eitra Þingvallavatn. 

 Ég var farinn að halda að fólk ætlaði að láta Bláskógabyggð og frú Þórunni umhverfisráðherra malbika yfir sig þegjandi og hljóðalaust.  Það ætti að vega þungt sem helsti sérfræðingur í Íslandi segir.  En forustufólki í Bláskógabyggð er ekki við bjargandi og frú Þórunn er fallin á fyrsta prófinu. 

Samfylkingin er að reyna að klóra í bakkann og stofnaði félag til stuðnings frú Þórunni, Græna netið.  Jú,jú, það var ályktað um álverin vondu, en ekki um að frú Þórunn hefur leyft eitrun Þingvallavatns, sem er auðvitað stranglega bönnuð samkvæmt lögum.   

Eitt dæmi um hve Þingvallavatn er einstakt í veröldinni er hversu tært það er.  Það eru mest dæmi um vötn þar sem sést niður á u.þ.b. 5 m dýpi, en í Þingvallavatni má sjá niður á 25-30 m dýpi!  En hversu lengi verður það?  Frú Þórunn er búin að leyfa veginn og eitrið.  Þorir ekki að breyta samkvæmt sinni sannfæringu.  Þá verður hægt að breyta nafninu á félaginu í Græna slýið eða Græna slímið.   

Þessi svonefndu náttúruverndarsamtök verða að gera eitthvað raunhæft í þessu máli, þetta er ekki búið fyrr en það er búið.  Dómstólaleiðin er eftir.                                       


Lítil saga úr apótekinu.

Bý við þau leiðindi að þurfa að taka inn helling af lyfjum, en því miður ekkert af þeim lyfjum sem ég hefði ef til vill áhuga á að taka.  Það eru að sjálfsögðu margir í þessum sporum.  Þessu fylgir einhver kostnaður, en ég kvarta ekki yfir Tryggingastofnun því ég get unnið fulla vinnu, en ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta getur verið erfið barátta fyrir þá sem hafa lægstu launin.

Ég hef reynt að kíkja á verðkannanir í lyfjaheiminum og verslað í þeim apótekum sem eru lægst, t.d. í Lyfjaveri og Rimaapóteki.  Lyf, sem hafði kostað 3-4 þúsund, var allt í einu ókeypis í Lyfjaveri fyrir nokkrum misserum og hefur verið síðan.  Ég var ekkert óánægður með þetta og vildi ekkert vera að mótmæla við þessar sætu afgreiðslustúlkur.  Og líður nú tíminn.

Þá gerist það að heimilislæknirinn stingur upp á að senda lyfseðilinn í Lyfjaval og ég jánka því.  Jæja, þegar kemur að því að borga áttaði ég mig á því, þó ég kunni ekkert að fara með peninga, að þetta var meira en ég átti von á.  Ég þrasaði smá, reyndi þó að stilla mig, og í ljós kom að ég átti að borga yfir 4 þúsund fyrir fyrrnefnt lyf.  En allt í einu varð það ókeypis og því borið við að starfsstúlka hefði gert mistök.  Gott og vel, en stuttu síðar kvartaði kona í dagblaði yfir lyfjaokri í þessu sama Lyfjavali og þá var kennt um mistökum starfsstúlku.  Þægileg lausn. 

Flestir þekkja orðið viðskiptasiðferðið hjá lyfsölukeðjunum tveimur, og ekki af góðu.  Þær gera litlu apótekunum ,,tilboð sem ekki er hægt að hafna":  Þú selur okkur apótekið, ef ekki, þá opnum við apótek hér við hliðina og lækkum verðið þar til þú gefst upp, en þá færðu að sjálfsögðu minna fyrir það og verður að skrifa undir að þú minnist ekki á þetta við nokkurn mann.  Minna má á hetjulega baráttu konu sem rak apótek í Eyjum við risana, en treysti sér skiljanlega ekki til að eyða mörgum af þessum örfáu árum sem okkur er úthlutað, í svona mannskemmandi stapp.  Ungur maður flutti í heimahagana á Skaganum og opnaði apótek, en þá vildi svo til að verð snarlækkaði hjá hinum.  Hann kærði. 

Fólk verður að reyna að styðja litlu apótekin.  Þetta eru aðferðir sem mafían hefur lengi notað með góðum árangri og félagar í henni eru glæpamenn.  Ég bind vonir við nýja heilbrigðisráðherrann þangað til annað kemur í ljós.

Fyrir nokkrum dögum neyddist ég til að láta senda lyfseðil fyrir margnefnt lyf í Lyfju því að þar er opið að kvöldi til.  Ég veit ekki af hverju ég átti ekki von á góðu, en ókeypislyfið kostaði þar 2,900 kr.  Lyfjafræðingurinn sagði að það hefði aldrei verið ókeypis hjá þeim og ég benti á að það væri vegna þess að þau væru mestu okrararnir og gætu bara átt þetta lyf.  Ég var sæmilega kurteis og rólegur og held ég sé eitthvað að þroskast.


Kaloríulaust sjónvarpskonfekt.

Hættir til að hafa logandi á sjónvarpinu en fylgjast ekkert með.  Ábyggilega óhollt, eins og allt er að verða í seinni tíð.  Var svo lánsamur að hrökkva í samband tvisvar á einum sólarhring, mér til mikillar ánægju og fróðleiks.

Pétur Tyrfings. í miklu stuði ræða dulbúnar skottulækningar og allt þetta húmbúkk sem nú er í gangi, t.d. lithimnulesara, dáleiðslufræðinga, höfuðbeinafólk, heilarar, birkiöskuætur, rope-jóga og hláturjóga o.s.frv. o.s.frv.  Áður var þetta einfalt, konur sem spáðu í bolla og svo einstaka miðill.  Svo er það heilsuefnafárið sem veltir stjarnfræðilegum upphæðum.  Pétur er mælskur og rökfastur og skiljanlegt að höfuðbeinafólkið hafi ekkert viljað við hann tala í sjónvarpssal.  Áfram Pétur!

Eitthvað togaði mig að bókaþætti Egils Helga., en þar er ekki bara verið að velta sér upp úr jólabókaflóðinu og auglýsa.  Fróðlegt að heyra Einar Má Jónsson í Svartaskóla lýsa tískusveiflum í hugmyndafræði. Las dóm um nýju bókina en var engu nær, en ætla nú að lesa hana.  Þetta gæti orðið góður þáttur hjá Agli, en maður var búinn að fá meira en nóg af Agli í því að kreista eitthvað úr blóðlausum pólitíkusum. 

Svo sagði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir frá uppáhaldsbók sinni, Karamazov-bræðrunum, sem hún hafði lesið fyrir 15 árum.  Ég öfunda fólk sem man eitthvað, en minnisleysi mitt hefur þó þann kost að ég þarf ekki að eiga nema 10 bækur, auðvitað allt meistaraverk, sem ég les reglulega og koma alltaf jafn skemmtilega á óvart. 

Það var meiriháttar axarskaft hjá vinstrigrænum að veita ekki Guðfríði Lilju verðugt brautargengi fyrir kosningarnar í vor, þessari snjöllu og skemmtilegu konu, sem auk þess er hámenntuð í frægustu háskólum heims. Þau hefðu betur losað sig við eitthvað af þessum körlum sem orðnir er að talvélum, t.d. Ögmund sem virðist telja það sáluhjálparatriði fyrir þjóðina að hann tjái sig um allt sem gerist á milli himins og jarðar. Þeir eru orðnir leiðinlegri en Hjörleifur Guttormsson var orðinn og svo er þeir að sjálfsögðu á móti öllu.

p.s. þær eru fallegar haustlitamyndirnar frá Þingvöllum í Fréttablaðinu í dag.  Þetta allt ætlar Bláskógabyggð og frú Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisbani að eitra með Gjábakkavegi.  Sorglegt. 

 

 

 


Höfundur

Viðar Jónsson
Viðar Jónsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband