3.6.2008 | 18:26
Hvar varst þú þegar...
Ég var að borða nautasteik á veitingahúsi og var farinn að sjá fyrir mér rústirnar, en þá var það búið. Kokkarnir komu hlaupandi út úr eldhúsinu. Allar myndir skakkar þegar ég kom heim. En þeim fækkar sem geta svarað því hvar þeir voru þegar Kennedy var skotinn, þeirri frægu spurningu.
Þá var ég í þrjúbíó í Gamlabíói, á sunnudegi að sjálfsögðu. Á leið niður Bankastræti eftir bíó sá ég í útstillingarglugga dagblaðsins Tímans fréttir af morðinu. Það hafði áhrif.
Hef undanfarin misseri verið að punkta niður eina og eina æskuminningu (smá sagnfræðingaleikur) og rekið mig á að enginn fótur er fyrir nokkrum lykilminningum. Ekki þægilegt þegar svoleiðis skjálftar brjóta stór stykki úr fortíðnni , en hún er nú það eina sem við eigum.
Oft hefur verið sagt, að þeir sem séu síljúgandi fari fljótt að trúa lyginni. Hið sama gildir þegar fólk lýgur að sjálfu sér. Kannski að þá verði til ígræddar minningar. Líklega eru þær oftar góðar heldur en hitt, hvers vegna að vera að hafa fyrir því að græða í slæmar minningar, nóg er af þeim samt.
Það er ekki oft sem ég heyri ekta kjaftasögur og enn sjaldgæfara að ég hafi þær eftir. Ef til vill lýsir hún einhverju í huga almennings þegar kreppan vofir yfir. Hún er ótrúleg...en : Maður sem fæddist með silfurskeið í munninum og sýnt hefur af sér mikla græðgi á síðustu árum, tók mjólkurpeninga fjölskyldunnar, 47 milljarða, og ætlaði amk. að tvöfalda þá á hlutabréfamarkaðinum, á nú 1 milljarð eftir og situr inni á Kleppi og reytir hár sitt.
Athugasemdir
JFK var samt víst myrtur á föstudegi - en kannski man maður frekar eftir því hvar maður var staddur þegar maður frétti það heldur en akkúrat hvar maður var á stund launsátursins. Þú manst eftir fréttinni í glugga Tímans, ég man eftir að hafa 7 ára gamall setið í stofunni heima og heyrt þetta í útvarpinu.
En ... manstu nokkuð hvaða mynd var verið að sýna þarna í Gamla bíó?
Almann Bróðir (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 22:37
Hasarmyndirnar voru í Austurbæjarbíói (Roy og Trigger) og Stjörnubíói (Tarsan) og það þótti hálfgerð undanrenna og fara í Nýja eða Gamla bíó því þar voru mest teiknimyndir. Mig minnir það amk.
vj
Viðar Jónsson, 7.6.2008 kl. 00:19
Skv. Bíósíðu Morgunblaðsins sunnudaginn 24. nóvember 1963 voru eftirfarandi 3-sýningar í gangi þann dag: Í Austurbæjarbíó "Konungur frumskóganna" (1. hluti); Í Stjörnubíó "Orustan á tunglinu 1965" og í Gamla bíó var "Pétur Pan" klukkan 3.
Þú hefur semsagt verið að koma af Pétri Pan þegar þú sást fréttina af morði Kennedys í glugga Tímans. Nú er Kennedy fyrir bí, Stjörnubíó og Gamla bíó horfin (amk sem slík), en Pétur Pan er víst ennþá að og eldist bara ekki neitt. Ætli hann sé alki?
Almann Bróðir (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.