29.10.2007 | 09:32
Í strætó
Ég hef verið að reyna að nota ekki bílinn í vinnuna, aka fram og aftur Miklubrautina endalaust. Er oft búinn kl. 8 og þá er alvarleg umferðarsulta á þessari leið, sem reynir verulega á þolinmæðina, en í strætó er þetta eintóm slökun.
Í nótt sá ég lennonljósið í fyrsta sinn á stjörnubjartri nóttu og fannst það skrýtin tilfinning að það var eins og beint fyrir ofan mann. Ég held að þetta sé gott í hófi. Þegar ég kom svo út í morgun sá ég bjarta stjörnu á austurhimninum, en ég skammaðist mín fyrir að vita ekki hvað hún hét. En ég sá hana af því að ég tók strætó.
Það var troðfullt í strætó, mest fallegt ungt námsfólk og svo heyrðist fólk tala útlensku. Munur en að húka aleinn í blikkdós frá Kóreu í umferðarteppu. Krakkarnir störðu flest á gemsana sína eða æpoda, með heyrnartól og þumalputtarnir á fullu. Nú eru flestir með tvær skólatöskur, eina fyrir fartölvuna, og þeir sem ætla líka í íþróttir, með þrjár. Í gamla daga var manni hótað hryggskekkju ef taskan var ekki nákvæmlega rétt á bakinu.
En sem sagt, mæli með strætó.
ATH. nýtt notendanafn: vidarjonsson.blogg.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.