8.9.2007 | 11:17
Játningar Viðars J. - framhald.
Hef ekki ennþá ákveðið hvort ég játi eitthvað á mig í þessu bloggi. En ég ætla að reyna að endursegja dæmið úr Herzog-myndinni The Wild Blue Yonder, sem maðurinn sem sagðist vera frá annari vetrarbraut, tók til að varpa ljósi á stöðu okkar jarðarbúa þegar við hefðum lokið við að drepa jörðina.
Árið 1977 héldu Voyager-geimförin tvö af stað og eru nú að komast út úr sólkerfinu. Árið 1989 fór Galileo-farið að kanna sólkerfið og engir byggilegir staðir sáust. Næsta stjarna við okkur, Alfa Centuri þar sem hitinn er 2 milljónir gráða og gæti verið óþægilegur, er í 4,5 ljósára fjarlægð. Sé miðað við hefðbundið eldflaugaeldsneyti þyrfti, til að ná 30% af ljóshraðanum, ekki bara alla bensíntanka á jörðinni eða einn á stærð við Klettafjöllin, heldur allan massa í geimnum sem sjá má með berum augum, þ.e. jörðina, sólina, sólkerfið, Vetrarbrautina, allar stjörnur í nálægum vetrarbrautum (efni=orka lærði maður í máladeild, en nú er það víst ekki svona einfalt).
Og hversu hratt höfum við komist? Voyager hafði náð 88,000 km á klst árið 2005. Ef mannað geimfar sem fer með þeim hraða hefði lagt af stað fyrir 20,000 árum til Alfa Centuri, hefði það í dag aðeins lokið 15% leiðarinnar. Í geimfarinu hefðu lifað 500 kynslóðir með úrkynjun, byltingum og morðum og enginn veit lengur til hvers var lagt af stað eða hvaðan. Fjarlægðin til staðar sem gæti verið byggilegur er ekki 4,5 ljósár, líklegra að hún sé 200,000 ljósár!
Það virðist ekki vera nein töfralausn önnur en að bjarga jörðinni. Ef við ætlum að fara eitthvað verðum við að hugsa okkur þangað. Það þarf að fá sem mest af afburðagreindu fólki inn á þetta svið. Ég játa að ég botna ekkert í þessu en hef áhuga og finnst vanta umfjöllun og námskeið fyrir þá sem ekkert skilja. Fólki finnst e.t.v. óþægilegt að hugsa um þessar risastærðir allar, svipað og við óttumst dauðann og svart tómið, en við fundum nú upp trúarbrögðin til að reyna að redda því.
Er nokkuð meira spennandi en geimurinn? Kannski börnin okkar, gul rós eða pönnukaka með rjóma, en þá er það líka upp talið.
Að lokum legg ég til, að Bláskógabyggð sem allt vill gera til að eyða Þingvallavatni, verði lögð í eyði.
Athugasemdir
skil ekki kommentið í gestabókinni minni.. áttu við Jónas Garðarsson?
Heiða B. Heiðars, 11.9.2007 kl. 11:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.