Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Það er fylgst með okkur

Það eru allt of fáir sem vita af yfirvofandi eitrun Þingvallavatns með lagningu hraðbrautar við vatnið.  Þetta er rekið áfram af Bláskógabyggð og Vegagerðinni gegn viðvörunum vísindamanna.  Þingvallanefnd segist vera stikkfrí og umhverfisráðherra segist vera stikkfrí.  Nýlega komu upp á yfirborðið upplýsingar um svo mikla kvikasilfursmengun í þingvallaurriðanum að varasamt er að borða hann.  Þetta hefur legið fyrir hjá Umhverfisstofnun frá 2003.  Gott dæmi um gagnslausa stofnun.  Kvikasilfrið berst líklega með leyniafrennsli frá Nesjavallavirkjun, en þeir gera eins lítið úr málinu og hægt er og nenna ekkert að rannsaka þetta og segja að þetta muni lagast!

Þingvallasvæðið er samkvæmt lögum friðað, en þeir sem eiga að tryggja að svo verði og að við skilum óspilltri náttúru til barnanna okkar, hafa brugðist skyldum sínum.  Hvar annars staðar í heiminum gæti það gerst að vísindamenn sjái sig neydda til að draga umhverfisráðherrann, frú Þórunni, fyrir dómstóla til að reyna að bjarga náttúruundri sem þegar er friðað?  Er nokkur leið að skilja þetta?  Ráðherrann er í þeirri öfundsverðu aðstöðu að geta gert eitthvað í málinu.

Þingvellir eru á Heimsminjaskrá ásamt um 800 merkra staða á jörðinni.  Friðað og á Heimsminjaskrá, maður hefði haldið að það hefði eitthvað að segja í náttúruvernd.  Ég hef nokkrum sinnum bloggað um þetta mál og finnst að því miður gerist ekkert jákvætt.  Til að gera eitthvað þá skrifaði ég yfirmanni Heimsminjaskrár og greindi í örstuttu máli frá vegalagningunni og kvikasilfrinu og aðgerðaleysi umhverfisráðherra.  Ég tók skýrt fram að ég væri ekki sérfræðingur í neinu og ætlaðist ekki til að fá svar.  Mér finndist bara Þingvellir vera yndislegur staður.  En viti menn, eftir nokkra klukkutíma kemur þetta svar:

Dear Mr Jonsson,

Thank you for your inquiry. Please be assured that we are following this question of the road construction very closely with our advisory bodies ICOMOS and IUCN and the national authorities.

Thank you for your support for World Heritage conservation,

Best wishes,
M. Rossler

Dr. Mechtild Rössler
Chief, Europe & North America
UNESCO World Heritage Centre


#$#$%$$%$# Þingvallanefnd!

Þingvallavatn og umhverfi þess er einstakt í veröldinni.  Náttúruundur, t.d. tærasta vatn heims og lífríki þess á engan sinn líka.  Það er sorglegt hve margir gera sér þetta ekki ljóst, skólakerfið sinnir ekki hlutverki sínu.  Nú er fyrirhugað að leggja 16 km malbikaðan veg á milli Laugarvatns og Þingvallavatns, þrátt fyrir að vísindamenn vari við því að eituráhrif frá umferðinni muni eyðileggja vatnið.  Of mikill mannfjöldi getur einnig haft skaðleg áhrif.  Það verða ekki falleg eftirmælin sem Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra fær fyrir að leyfa þetta, það er ótrúlegt að skilja ekki hvað er hér að gerast.  Hún vildi að eitrið yrði mælt eftir á, líklega þægilegra að komast að því.

Hver er að heimta þennan veg?  Er það Bláskógabyggð, sem skreytir sig með stolnum fjöðrum og segir: ,,Nýtt nafn sveitarfélagsins er fengið að láni úr Þingvallasveit og tengist birkinu og bláma vatnsins."  Það er ekkert sem réttlætir þessi fyrirhuguðu náttúruspjöll, ekki einu sinni það að þeir í Bláskógabyggð vilji selja fleiri lóðir undir sumarbústaði.  Vilji menn skoða vef sveitarfélagsins, undir liðnum umhverfismál, er það fljótgert því þar stendur ekki eitt einasta orð!  Aðeins þrjú nöfn: Sigurður St. Helgason, Snæbjörn Sigurðsson og Sigrún Reynisdóttir.  Vonandi er enn tími til að upplýsa fólk svo að það sjái villu síns vegar. 

Það reyndist kolrangt að halda að hæstvirt Þingvallanefnd bæri hag Þingvallavatns fyrir brjósti.  Ekki er líklegt að t.d. Skipulagsstöfnun eða þá Vegagerðin geri eitthvað sem tengist Þingvallavatni í trássi við nefndina.  Í lögum segir: ,,Land þjóðgarðsins skal vera friðað í því skyni að varðveita ásýnd þess sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari."  Og einnig:  ,,Vernda skal lífríki Þingvallavatns..."

Fer þetta eitthvað á milli mála?  En hverjir eru í Þingvallanefnd?  Sjö þingmenn auðvitað, sjö dvergar í umhverfismálum.  Ekki einn náttúrufræðingur á þar fast sæti! (Jú,jú, Össur og urriðinn).  Það hafa verið nefndir bitlingar.  Þingvallavatn er nú á heimsminjaskrá, og segir það ef til vill einhverjum eitthvað, en þegar þessi vá er fyrir dyrum ræðir nefndin hvort eigi að höggva fáein tré eða hversu mörg klósett eigi að vera á Hótel Valhöll.  Það verður bara að vona að Forsætisráðuneytið grípi hér í taumana, en því miður þá held ég að núverandi umhverfisráðherra þori ekki að setja hnefann í borðið, þrátt fyrir að hér sé einstakt tækifæri til að vinna sér sess í Íslandsögunni...en orðstír deyr aldregi...

Sonnetta Jakobs J. Smára, Þingvellir, hefst á þessari fallegu ljóðlínu: ,,Sólskinið titrar, hægt um hamra og gjár."  Skáldið lýkur kvæðinu með því að segja, að á fögru sumarkvöldi megi heyra sögu landsins sem þyt í laufi.  Það er hætt við því, að þeim sem ábyrgir verði fyrir því að þessi orð verði innihaldslaus, með eyðingu náttúrunnar, muni reynast erfiður dauðinn.

Hér gæti verið ástæða til að rifja upp, t.d. fyrir Þingvallanefnd, að á 17. júni 1994,  klukkan korter gengin í tólf, á 50 ára afmæli lýðveldisins á Þingvöllum, vitnaði Geir H. Haarde í þetta sama kvæði í ræðu og talaði um Þingvelli sem helgan stað.

 

 

 


Höfundur

Viðar Jónsson
Viðar Jónsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband