Leita í fréttum mbl.is

Margt býr í frostinu

Lítil frétt AP af Suðurheimsskautinu vakti athygli mína. Tekist hafði að lífga við örverur úr elsta ís jarðarinnar.  Aldurinn var frá hundrað þúsund upp í átta milljón ár.  Örverur úr yngsta ísnum tóku að vaxa er þær fengu hita og næringu en þær úr eldri í uxu mun hægar og var fylgst með þeim í heilt ár, en það tekur viku að rækta bakteríu.  Eflaust segir þetta ýmislegt um möguleika lífs á jörðinni svo og á öðrum plánetum. Hinn mikli geimfræðingur, Stephen Hawking, hefur bent á að framtíð mannkynsins sé úti í geimnum.  Við verðum að eyða miklum peningum í rannsóknir og einnig að fræða almenning þannig að allir skilji.  Margir segjast fá svimakast sé minnst á geiminn og verða að setjast niður.

Einhverra hluta vegna vegna kom teiknimyndakóngurinn Walt Disney upp í hugann, en hann gafst ekki upp á lífinu og lét frysta sig í trú á framfarir í læknavísindum.  Þetta gerðu reyndar fleiri milljónamæringar, sem gátu borgað rafmagnsreikninginn, en flestir töldu nú að þetta væri bara enn ein dellan í Ameríku. Ef til vill fá örverurnar frá Suðurheimsskautinu einhverja til að endurskoða afstöðu sína.

Fólksflótti úr sjávarþorpum og harkalegur niðurskurður á veiðiheimildum hlýtur að kalla á róttækar og óhefðbundnar aðgerðir.  Atvinnuþróunarfólk situr með sveittan skallann, sveitarstjórnir senda frá sér tilkynningar og heimta þetta og hitt, koma t.d. með tillögu um olíuhreinsunarstöð, orkufrekar gagnageymslur fyrir netfyrirtæki og endalaus jarðgöng, allt prýðilegar tillögur.  En er ekki verið að leita langt yfir skammt?  Við eigum nóg rafmagn og þar sem það blasir við að æ fleiri munu láta frysta sig, og gleymum því ekki að við Íslendingar erum líka orðnir ríkir, er þá ekki ráð að við tækjum að okkur að geyma frosið fólk?  Tóm frystihús með frystitækjum og frystigeymslum eru í öllum sjávarplássum.  Og frosið fólk með sérþarfir og nóga peninga gæti jafnvel fengið að vera um borð í frystitogara.  Svo þarf heldur ekkert umhverfismat.


« Fyrri síða

Höfundur

Viðar Jónsson
Viðar Jónsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband